Skoðun

Heiðari Má svarað

Bjarni Geir Einarsson og Jósef Sigurðsson skrifar
Nokkur umræða hefur skapast um þróun lífskjara á Íslandi í kjölfar viðtals við Heiðar Má Guðjónsson þar sem hann beinir ljósinu annarsvegar að launaþróun og hinsvegar að verðmætasköpun í hagkerfinu. Fjallað var um aðferðafræði við samanburð á launaþróun í grein okkar sem birtist í Morgunblaðinu í dag (13.7.2012). Hvað umfjöllun og samanburð á lífskjörum og verðmætasköpun eru nokkur atriði til viðbótar sem vert er benda á.

Við skoðun á þróun lífskjara er gjarnan stuðst við landsframleiðslu á mann sem mælir þá verðmætasköpun sem á sér stað innanlands. Eigi hins vegar að greina frá hlutdeild erlendra aðila í framleiðslu hagkerfisins þarf að skoða þjóðarframleiðslu á mann en það er landsframleiðsla að frádregnum hlut erlendra aðila innanlands og að viðbættum hlut innlendra aðila erlendis. Tölur Hagstofunnar sýna að þjóðarframleiðsla á mann er nú svipuð og árið 2000 en um fjórðungi hærri en árið 1993. Sannarlega fylgdi því kreppunni umtalsverð lífskjaraskerðing en líkt og aðrir mælikvarðar sýna stöndum við engu að síður mun betur að vígi en fyrir tuttugu árum síðan.

Ofangreindur mælikvarði á lífskjör gefur þó skekkta mynd fyrir árin eftir hrun. Samkvæmt gildandi aðferðafræði eru hreinir áfallnir vextir dregnir frá landsframleiðslu við útreikninga á þjóðarframleiðslu. Eins og margoft hefur verði bent á í Peningamálum Seðlabanka Íslands er stór hluti þessara vaxta tilkominn vegna skulda gömlu bankanna sem nú eru í gjaldþrotameðferð og því ljóst að verði aldrei greiddir. Af þessum sökum er því þjóðarframleiðsla eftir hrun vanmetin og raunveruleg staða því nokkru betri en tölurnar sýna.

Samkvæmt Heiðari Má Guðjónssyni hefur íslenskt hagkerfi breyst að því leyti að hlutdeild erlendra aðila í framleiðslu þess hefur aukist á kostnað hlutdeildar innlendra aðila. Væri það raunin myndi það koma fram í tölum um hreina erlenda stöðu þjóðarbúsins, en með hreinni erlendri stöðu er vísað til eigna íslenskra aðila erlendis að frádregnum eignum erlendra aðila á Íslandi. Nauðsynlegt er að leiðrétta fyrir skekkju í þessum tölum sem tilkomin er vegna innlánsstofnana í slitameðferð. Leiðréttar tölur sýna aftur á móti að þátttaka erlendra aðila í hagkerfinu hefur dregist umtalsvert saman og leita þarf í það minnsta lengra aftur en til ársins 2000 til að finna jafngóða erlenda stöðu og nú er.

Að lokum er rétt að benda á að ýmiss merki sjást um batnandi stöðu þjóðarbúskaparinn og þar með bætt lífskjör Íslendinga. Vaxandi atvinna og fjölgun vinnustunda skilar sér í aukningu ráðstöfunartekna heimila sem þrátt fyrir að hafa gengið í gegnum djúpa efnahagskreppu standa nú jöfn að vígi og við miðjan síðasta áratug.

Höfundar eru hagfræðingar við rannsóknar og spádeild hagfræði og peningastefnusviðs Seðlabanka Íslands. Við tölulega greiningu þessarar greinar var byggt á opinberum gagnagrunni þjóðhagslíkans Seðlabanka Íslands sem styðst við gögn Hagstofu Íslands. Skoðanir sem birtast í þessari grein eru höfunda og þurfa ekki endilega að endurspegla skoðanir Seðlabanka Íslands.

Bjarni Geir Einarsson og

Jósef Sigurðsson

Höfundar eru hagfræðingar hjá Seðlabankanum.




Skoðun

Sjá meira


×