Skoðun

Veiðimálastofnun

Óðinn Sigþórsson skrifar
Veiðimálastofnun á sér merka sögu sem rekja má allt aftur til ársins 1946 þegar embætti Veiðimálastjóra var sett á stofn. Saga stofnunarinnar er því samofin nýtingu veiðihlunninda á Íslandi. Það skal því þakka framsýni þeirra sem höfðu forgöngu um stjórnsýslu og rannsóknir í veiðimálum að við eigum bestu samfelldu upplýsingarnar um laxastofna hérlendis í samanburði aðrar laxveiðiþjóðir við Norður- Atlantshaf.

Veiðimálastofnun hefur verið til ráðgjafar um verndun og nýtingu á laxi og á það ekki síst við þegar framkvæmt hefur verið í ám og vötnum. Þá er stofnunin kölluð til rannsókna til að meta áhrif og veita ráðgjöf um hvernig draga megi úr neikvæðum áhrifum slíkra framkvæmda eða leggja til mótvægisaðgerðir þannig að hag lónbúans sé gætt eins og kostur er. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar örlar á umræðu þar sem ruglað er saman hagsmunum framkvæmdaraðila og starfi vísindamannanna, sem hafa það hlutverk eitt að sporna gegn neikvæðum áhrifum framkvæmda í ám og vötnum. Framkvæmdir verða alltaf á ábyrgð framkvæmdaraðilans hvort sem þar er um veiðifélög að ræða eða aðra.

Veiðifélög hafa áratuga reynslu af starfi Veiðimálastofnunar og í ljósi mikilvægi hennar fyrir atvinnugreinina hefur Landssamband veiðifélaga ályktað á allflestum aðalfundum sínum um nauðsyn þess að efla stofnunina, en fjárveitingar til grunnrannsókna í ám og vötnum hafa verið smánarlega litlar. Raunar er furðulegt hversu miklu stofnunin hefur áorkað á því sviði þótt úr litlu fjármagni hafi verið að spila. Verkefnin eru margvísleg. T.d. hafa verið byggðir 75 fiskvegir hér á landi og þar með hafa opnast um 800 km af ám sem nýtast til stækkunar búsvæða laxa og sem veiðisvæði. Þarna er um gríðarleg verðmæti að ræða sem sést best á því að ofan laxastiga eru nú um 30% af fiskgengum svæðum landsins í laxveiðiám. Að öllum þessum framkvæmdum hefur Veiðimálastofnun komið með ráðgjöf og rannsóknum. Við státum því af framúrskarandi vísindamönnum hjá Veiðimálastofnun með gríðarlega reynslu sem standa jafnfætis, ef ekki framar kollegum sínum erlendis.

Nú eru áformaðar miklar breytingar á opinberum stofnunum í kjölfar fækkunar ráðuneyta. Hugmyndir hafa verið um að leggja Veiðimálastofnun niður og færa verkefni hennar undir sérstakt auðlinda- og umhverfisráðuneyti. Landssamband veiðifélaga leggst eindregið gegn slíkum áformum og telur að rannsóknum veiðimála sé best fyrirkomið hjá ráðuneyti atvinnuvegarins áfram. Stjórnin hefur því óskað eftir fundi með sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að ræða framtíð þessarar stofnunar sem við teljum hafa gríðarlega þýðingu fyrir okkar atvinnuveg. Það yrði mikið slys ef verkefni VMS yrðu bitbein þeirra sem vilja aukinn eld að sinni köku.




Skoðun

Sjá meira


×