Skoðun

Til Ögmundar

Einar Kr. Þorleifsson skrifar
Sæll Ögmundur.

Kona mín er kínversk. Við buðum 22ja ára gömlum syni hennar, sem búsettur er í Kína, til Íslands í þrjá mánuði. Við unnum að því að fá svokallaða ferðamannavegabréfsáritun fyrir hann hjá íslenska sendiráðinu í Peking, en þar vorum við stödd. Þessi afgreiðsla tók langan tíma og við biðum milli vonar og ótta. Að lokum kom svarið, hann fengi áritun en starfsmaður sendiráðsins sagði að það væri háð því að hann sækti ekki um framlengingu, þegar til Íslands væri komið, þetta væru skilaboð frá Útlendingastofnun.

Hér er komið að kjarna þessa greinarkorns: Er hægt í lýðræðisþjóðfélagi að meina einhverjum um að sækja um eitthvað til yfirvalda? Ég veit að þú ert mér sammála að svo er ekki. En þetta lýsir varnarstöðu Útlendingastofnunar, sem óneitanlega kemur oft skringilega út gagnvart okkur, sem þurfum að leita á náðir hennar.

Það var mjög óþægilegt að taka við þessu símtali frá sendiráðinu, en ég ákvað að þegja. Valgerður Bjarnadóttir skrifaði nýlega grein í Fréttablaðið um hræðslu almennings við að gagnrýna opinbert stjórnvald. Óttinn er fyrir hendi, að það komi okkur í koll í meðferð stjórnvaldsins á máli okkar.

Þú hefur sýnt að þú vilt standa vörð um réttindi fólks. Hvað er hægt að gera til að bæta þetta erfiða ástand? Annars vegar er stofnun sem lítur á það sem hlutverk sitt – og að sumu leyti skiljanlega – að vera á bremsunni gagnvart því að of margir útlendingar setjist hér að. Hins vegar erum við aðstandendur sem eigum svo mikið undir því komið að Útlendingastofnun sýni okkur skilning og upplifum að það sé heflað yfir okkur í okkar persónulegu málum.

Ég vek athygli á grein í Fréttablaðinu nýlega eftir Kristján Sturluson hjá Rauða krossinum og Margréti Steinarsdóttur hjá Mannréttindaskrifstofunni. Þau benda á að tryggja þurfi réttaröryggi útlendinga utan EES-svæðisins og að þeir fái heildstætt mat hjá Útlendingastofnun með tengsl þeirra við landið í huga. Ég vona líka að nefnd sem þú skipaðir muni þoka málum áleiðis.




Skoðun

Sjá meira


×