Viðskipti innlent

Eygir í málslok hjá Viggó eftir fimm ára rannsókn

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Það tók efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra rúm fjögur ár að rannsaka mál Viggós.
Það tók efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra rúm fjögur ár að rannsaka mál Viggós.
Eftir fimm ára rannsókn sér nú loks fyrir endann á máli fyrrverandi framkvæmdastjóra Verðbréfaþjónustu sparisjóðanna (VSP), Viggós Þóris Þórissonar, sem hefur verið ákærður fyrir umboðssvik og tilraun til fjársvika, en aðalmeðferð í máli hans stendur nú yfir.

Aðalmeðferð stendur nú yfir í Héraðsdómi Reykjaness í máli ákæruvaldsins gegn Viggó en málið hefur verið til rannsóknar í tæp fimm ár, eða frá apríl 2007, þegar stjórnendur fyrirtækisins tilkynnti lögreglu um ætlaða refsiverða háttsemi Viggós þar sem grunur lék á að hann hefði falsað skjöl, sem áttu að vera frá fyrirtækinu en voru það ekki. Var honum í kjölfarið sagt upp störfum og rannsókn hafin á málinu.

Viggó er grunaður um að hafa gefið út falsaða yfirlýsingu vegna ábyrgðar á skuldabréfaútboði félagsins Napis Incorporated í kauphöllinni í Guernsey. Ábyrgðaryfirlýsingin setti VSP í ábyrgð fyrir 200 milljónum dollara, en í yfirlýsingunni kom fram að Napis ætti hlutabréf, verðbréf eða peningainnistæðu að verðmæti um 680 milljónir dollara, jafnvirði rúmlega 80 milljarða króna, á reikningum hjá VSP. Þær innistæður voru hins vegar ekki til.

Stórfelld fjártjónshætta

Með þessa ábyrgðaryfirlýsingu að vopni gaf Napis út skuldabréf í Guernsey. Helsti eigandi Napis er David Spargo, gamall skólafélagi Viggós, en Viggó var sjálfur skráður fyrir 25 prósenta hlut í Napis.

Yfirlýsingin fólst í ábyrgð VSP á skuldabréfaútboði Napis, en þetta er talið hafa falið í sér stórfellda fjárstjónshættu fyrir VSP.

Reynt var að taka lán út á ábyrgðaryfirlýsinguna í Filippseyjum, Bretlandi og víðar. Ekki varð tjón vegna ábyrðgaryfirlýsingarinnar en umboðssvik eru svokallað hættubrot sem þýðir að það er nóg til sakfellingar að háttsemin hafi valdið fjártjónshættu.

Íslandsmet í farbanni

Viggó var úrskurðaður í farbann um leið og málið komst upp og var það ítrekað framlengt þar til Hæstiréttur felldi farbannið úr gildi í mars 2009. Hann var því alls 23 mánuði í farbanni og hefur enginn Íslendingur mátt sæta farbanni svo lengi.

Rannsóknin tafðist mjög lengi vegna gagna sem ekki bárust frá útlöndum. Þá fóru rannsakendur á vegum efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra ítrekað erlendis vegna rannsóknarinnar en meðal gagna í málinu er skýrslutaka af David Spargo sem tekin var í Bandaríkjunum.

Með nýjan verjanda

Viggó naut aðstoðar Sveins Andra Sveinssonar sem hafði stöðu verjanda hans á rannsóknarstigi málsins. Hann hefur hins vegar skipt um verjanda og nú er það Vífill Harðarson, hrl. á Juris lögmannstofu, sem gætir hagsmuna hans í málinu.

Í kjölfar aðalmeðferðar verður málið dómtekið en samkvæmt lögum um meðferð sakamála þarf niðurstaða að liggja fyrir innan fjögurra vikna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×