Skoðun

Skuggaleg áform

Sverrir Björnsson skrifar
Það er dimmt yfir miðbæ Reykjavíkur því verðmæt lífsgæði borgarbúa eru í hættu.

Ný plön kasta löngum skuggum yfir útivistarsvæði okkar og barna, barna okkar.

Minnka á sólarsýnina sem Reykvíkingar njóta svo ríkulega á Austurvelli á góðviðriðsdögum.

Taka á af okkur stóran hluta útivistarsvæðisins á Ingólfstorgi og há hús munu skyggja á þann hluta torgsins sem verður ósnertur.

Byrgja á gömlu húsin við Ingólfstorg sjónum og búa til þröngt og skuggalegt sund þvert í gegnum bæinn.

Loka á fyrir akandi umferð almennings um miðbæinn til að hægt sé að þjónusta risavaxið hótel.

Endanlega á að króa elsta hús Reykjavíkur, Aðalstræti 10, af á milli hárra stórhýsa.

Það á að þrengja að Fógetagarðinum, Alþingishúsinu og gömlu fallegu húsunum við Kirkjustræti og eyðileggja útsýnið upp götuna að Herkastalanum og Hótel Reykjavík.

Allt þetta er á áætlun í verðlaunatillögunni um skipulag miðbæjarins sem nú er til sýnis við Kirkjustræti.

Er árið 1950? Hvernig dettur heilvita fólki þetta í hug í dag? Hvað þá fagfólki í borgarpólitík.

Það er löngu sannað með dauðum miðbæjum um allan heim að það þrífst ekki líf í tilbúnum steypumiðbæjum en það blómstrar í björtu umhverfi ljóss og sjarma eldri bygginga.

Hvað gengur mönnum til? Jú, það er alltaf sama gamla svarið: Til að peningamenn fái sitt, allt fyrir skammtímagróðann! Hefur frjálshyggjuhugsunin – auðinn ofar lífinu – ekki valdið okkur nægum skaða á undanförnum árum?

Hvar er nú Batman Reykjavíkur? Sá er ávallt bjargar Gotham City þegar illa meinandi klækjarefir ætla að ræna lífsgæðum borgarbúanna í þeirri skuggalegu borg. Jón Gnarr, farðu nú í skikkjuna, við þörfnumst þín. (Dagur þú manst að Robin getur líka bjargað, stundum.) Við hin getum reynt að verjast umhverfisofbeldinu með því að greiða atkvæði á vefnum Ekkihotel.is.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×