Innlent

Fjögur ár frá neyðarlögum

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Í dag eru fjögur ár liðin frá því neyðarlög voru sett í landinu og Geir H Haarde þáverandi forsætisráðherra bað guð um að blessa Ísland í eftirminnilegu sjónvarpsávarpi.

"Góðir Íslendingar, ég hef óskað eftir því að fá að ávarpa ykkur á þessarri stundu nú þegar miklir erfiðleikar steðja að íslensku þjóðinni."

Svona hófst ávarp Geirs H Haarde sjötta október fyrir fjórum árum síðan. Þennan örlagaríkadag voru neyðarlögin sett sem gerði innistæðueigendur að forgangskröfuhöfum í bú bankanna og tryggði þar með tilverugrundvöll nýju bankanna sem stofnaðir voru á grunni hinna föllnu.

Í lok október óskaði ríkisstjórnin síðan formlega eftir samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn við að koma á efnahagslegum stöðugleika. Alls fékk Ísland lán frá AGS og vinaþjóðum sem jafngilti 540 milljörðum króna auk lántökuréttar frá Norðurlöndum og Póllandi uppá 150 milljarða.

Mánuðirnir í kjölfar hrunsins voru síðan þrautaganga fyrir íslenskt samfélag, milli halli var á rekstri ríkissjóðs, skera þurfti niður á öllum sviðum og skuldavandi heimilanna jókst með degi hverjum.

Mikil reiði blossaði upp meðal almennings sem leiddi til búsáhaldabyltingarinnar alræmdu og stjórnarslita ríkisstjórnar Geirs H Haarde í lok janúar 2009.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J Sigfússonar hefur síðan haldið í stjórnartaumana og stýrt þjóðinni í gegnum grýttan jarðveg. Nú fjórum árum síðar eru skuldir ríkissjóðs enn miklar, gjaldeyrishöft í landinu og óvissa vegna Icesavemálsins og því ljóst að mikil vinna er enn framundan fyrir íslensku þjóðina.


Tengdar fréttir

Til efnahagslegs helvítis og til baka

Hinn 1. október 2008 kynnti fjármálaráðuneytið nýja þjóðhagsspá. Hún gerði ráð fyrir að "eftir áralanga kröftuga uppsveiflu“ væri aðlögun að jafnvægi hafin í þjóðarbúinu. Samkvæmt henni myndi hagvöxtur verða 1,7 prósent á Íslandi árið 2008 og 1,1 prósent árið 2009. Spáð var að atvinnuleysi myndi aukast á því ári og verða 2,7 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×