Skoðun

Það má tala um þetta!

Hildur Jakobína Gísladóttir skrifar
Þegar börn fæðast andvana eða deyja í móðurkviði finna foreldrar þeirra fyrir sárri sorg. Hún varir lengi og eykst og minnkar til skiptis. Þrátt fyrir sorgina þurfa þeir að takast á við raunveruleikann, kveðja barnið og tilkynna aðstandendum og vinum barnsmissinn ásamt því að ljúka ýmsum formsatriðum, eins og dánarvottorði og ganga frá barnaherberginu sem kannski var fullbúið, auk ýmislegs fleira. Verður ekki nógu vel brýnt fyrir fagfólki að vera vel undir það búið að taka á móti foreldrum í þessari erfiðu stöðu. Framkoman við þá getur skipt sköpum fyrir hvernig þeim gengur að vinna úr sorginni. Orðaval þarf að vanda og sýna hlýhug og samkennd auk þess að leiðbeina þeim svo að þeir þurfi sem minnst að hafa fyrir sársaukafullum afgreiðslumálum t.d. í stjórnkerfinu. Fólk man í smáatriðum orð og atvik undir þessum kringumstæðum ekki síður en við hefðbundna barnsfæðingu þegar allt gengur að óskum.

Foreldrar í þessum aðstæðum þurfa á leiðbeiningum að halda um hvað sé best að gera. Það þarf að upplýsa þá um möguleika sem í boði eru varðandi það að kveðja barnið með þeim hætti að þeir verði eins sáttir og hægt er og sjái ekki eftir neinu síðar meir.

Eftirfarandi er vert fyrir fagfólk að hafa í huga:



  • Virða og hafa skilning á hugsanlegri bón foreldra um að fá álit annars læknis á fósturgreiningunni
  • Aðskilja sængurkonuna frá barnshafandi konum og grátandi ungbörnum sbr. reynslusögu í fjölmiðlum sl. viku
  • Útskýra fæðingarferlið fyrir fram og leyfa foreldrum að spyrja spurninga
  • Segja frá hvernig búast megi við að barnið líti út við fæðingu
  • Ræða óskir foreldra um kveðjustundir og athafnir
  • Hvetja foreldra til að líta á barnið sitt eftir fæðingu og halda á því
  • Hvetja foreldra til að taka myndir af barninu – ef þeir vilja það ekki gæti starfsfólk sjúkrahússins tekið mynd og geymt hana þannig að foreldrarnir gætu komið síðar og fengið hana ef þeir sjá sig um hönd
  • Hvetja foreldra til að taka þátt í að baða barnið og klæða eftir andvana fæðingu
  • Leyfa foreldrum að fá barnið þegar þeir vilja meðan á innlögn stendur
  • Gefa foreldrum hárlokk, þrykkja fótspor á blað, geyma gögn og gefa foreldrum úlnliðsmerki með upplýsingum um barnið eins og gert er við hefðbundna fæðingu
  • Halda litla kveðjustund í kapellu sjúkrahússins
  • Láta félagsráðgjafa sjúkrahússins sjá um að senda dánarvottorð eða staðfestingu á andvana fæðingu til Tryggingastofnunar (þannig að foreldrar í sorg þurfi ekki að útskýra eða rökræða við starfsmann TR um hvernig andlát barnsins bar að)
  • Hvetja foreldra til að skrifa niður spurningar sem vakna áður en þeir koma í eftirskoðun
  • Hringja eftir 3 -6 mánuði og kanna líðan foreldra m.t.t. áfallastreituröskunar
  • Þessi ráð kosta ekki mikið og ef þau væru fast verklag á hverri kvennadeild myndi það auðvelda foreldrum að ganga í gegnum raun þessa þannig að sorgarferlið gangi sem eðlilegast fyrir sig.



Skoðun

Sjá meira


×