Viðskipti innlent

Fær ekki að vita hver átti bréfin í Glitni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðmundur Jón Matthíasson vildi vita hver átti bréfin í Glitni.
Guðmundur Jón Matthíasson vildi vita hver átti bréfin í Glitni.
Guðmundur Jón Matthíasson sem stefndi íslenska ríkinu vegna tjóns sem hann varð fyrir þegar hann keypti bréf í Glitni eftir að ríkið tók yfir 75% hlut í bankanum fær ekki upplýsingar um það hver raunverulegur seljandi bréfanna var.

Guðmundur er í hópi fólks sem tapaði háum fjárhæðum á kaupum hlutabréfa í Glitni vikuna fyrir þjóðnýtingu bankans. Fréttastofa Stöðvar 2 og Vísis sagði frá því fyrir tæpu ári síðan að hópurinn hygðist stefna íslenska ríkinu. Hópurinn teldi sig hafa verið rændur þar sem ráðamönnum hafi verið grafalvarleg staða bankakerfisins ljós en engu að síður leyft kaup og sölu á hlutabréfum í bankanum eftir að ríkið tók 75% hlut yfir í lok september 2008. Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, hafi meðal annars sagt í útvarpsviðtali að ekki væri ástæða til að ætla annað en vel myndi ganga hjá Glitni í framtíðinni og ríkissjóður myndi innan tíðar losa sig við hlutabréfin og vonandi hafa af því fjárhagslegan ávinning.

Guðmundur höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu og Kauphöll íslands vegna tjóns sem hann varð fyrir þegar bankinn féll svo endanlega og skilanefnd var sett yfir stjórn hans. Eftir að hann höfðaði málið óskaði hann eftir því að Kauphöll Íslands og Glitnir veittu upplýsigar um það hver hefði í raun átt þessi bréf. Glitnir hafnaði þeirri kröfu, annars vegar á þeirri forsendu að bankaleynd væri í gildi en hins vegar vegna þess að Guðmundur Jón hefði ekki lögvarða hagsmuni af því að fá þessar upplýsingar. Guðmundur Jón væri í máli gegn íslenska ríkinu vegna þess að eftirlitsskylda hefði brugðist. Hann væri ekki í máli gegn þeim sem seldi bréfin og því skipti engu máli hver átti þau.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×