Skoðun

Þegar ég missi trúna á mannkyninu

Daníel Geir Moritz skrifar
Heima í Neskaupstað er eitt af þeim glæsilegu félagsheimilum sem landið státar af. Í því fór ég á mína fyrstu bíósýningu, steig í fyrsta sinn á svið, sá mitt fyrsta leikrit, upplifði mína fyrstu tónleika, vann í bingói Þróttar, fór í minn fyrsta skemmtistaðasleik og svo mætti lengi telja. Ég á þaðan margar góðar minningar og eru verðmæti félagsheimila ekki metin til fjár.

Ég hef búið í Reykjavík síðan 2005 og síðan þá sótt ófáar skemmtanir á Nasa. Skemmtanir af öllum stærðum og gerðum. Húsið er sérlega hlýlegt, einhvern veginn í réttri stærð og stemningin sem þar myndast slær öllum skemmtistöðum borgarinnar við. Í einhverjum tilfellum kemst þetta nálægt því að vera sveitaball í borg. Þetta er félagsheimili Reykvíkinga. Hús sem marga dreymir um að fá að stíga á stokk í. Hús sem margir hafa stigið á stokk í, stoltir og skemmt sér og ekki síður öðrum.

Þegar ég heyrði fyrst af áformum þess að rífa ætti húsið hristi ég hausinn og hugsaði með mér, þetta gerist aldrei. Fólk myndi aldrei vilja rífa Nasa. Ekki frekar en að virkja Gullfoss, byggja blokk í Ásbyrgi, losa skolp í Þingvallavatn eða selja Höfða útrásarvíkingum. Ef eitthvað af þessu myndi gerast myndi trú mín á mannkyninu minnka.

En hvað er svo að gerast? Allt útlit er fyrir að Nasa verði rifið og skarð höggvið í bæjarmynd og menningu Reykjavíkur. Skarð sem skilur eftir sig ör, svekkelsi og vonbrigði. Gjörningur sem fær fólk til að hugsa, þetta er svo rangt!

Er í alvöru ekkert hægt að gera? Er þetta óhjákvæmilegt skref ósanngirnis, auðmangs og viðbjóðs? Þetta er mál sem snýst ekki um trefla, latte eða Eurovision-partí. Þetta snertir okkur öll.

Til hvers er borgarstjórn, húsafriðunarnefnd og réttlætiskennd almennings? M.a. til þess að harmleikur eins og brotthvarf Nasa verði ekki raunin, ekki satt?

Plís ekki láta rífa Nasa!




Skoðun

Sjá meira


×