Erlent

Berbrjósta mótmæli á undan Evrópuleiknum

Hópur berbrjósta kvenna vopnaður gúmmíkylfum réðist á lögregluna í Kænugarði í gærdag í undanfara úrslitaleiksins í Evrópumótinu í fótbolta.

Um var að ræða nokkra tugi meðlima femínista hreyfingarinnar Femen sem vakið hefur athygli undanfarnar vikur fyrir berbrjósta mótmælaaðgerðir. Mótmæli Femen kvenna hafa einkum beinst að mansali og vændisstarfsemi í Úkraínu sem þær telja að hafi færst í aukana í landinu í kjölfar Evrópumótsins.

Hinar berbrjósta konur höfðu margar skrifað orðin Fuck Euro 2012 yfir brjóst sín, eða Til fjandans með Evrópumótið, áður en þær lentu í átökunum við lögreglumenn fyrir utan Olympíuíþróttavöllinn í Kænugarði. Lögreglunni tókst að yfirbuga konurnar og ná af þeim gúmmíkylfunum. Nokkrar þeirra voru handteknar og færðar til yfirheyrslu en síðan sleppt.

Femen hreyfingin var stofnuð fyrir um fjórum árum síðan þegar háskólastúdínur fóru úr að ofan í mótmælaaðgerðum sínum gegn umfangsmikilli vændisstarfsemi í Úkraínu. Rússneskar stallsystur þeirra hafa síðan óspart notað ber brjóst til að mótmæla Putin forseta Rússlands og spillingu innan stjórnar hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×