Erlent

Innbyrti 180 poka af heróíni

Eins og sjá má innbyrti konan verulegt magn af fíkniefninu.
Eins og sjá má innbyrti konan verulegt magn af fíkniefninu. mynd/AP
Rúmlega fimmtug kona var handtekinn á flugvellinum í Dulles í Bandaríkjunum eftir að hún reyndi að smygla 2.3 kílóum af heróíni inn í landið.

Samkvæmt AP fréttastofunni hafði konan innbyrt 180 poka með efninu.

Konan var að koma frá Eþíópíu og var stöðvuð af tollvörðum á Dulles flugvellinum í Washington.

Við hefðbundið eftirlit tóku tollverðirnir eftir því að magi konunnar var óeðlilega stífur. Röntgenmynd var tekin og upp komst um fíkniefnin.

Konan var flutt á sjúkrahús í flýti og var hún undir eftirliti lækna þangað til að efnin höfðu skilað sér.

Talið er að götuvirði fíkniefnanna hafi verið 150.000 dollarar eða um 19 milljónir íslenskra króna.

Málið þykir afar sérstakt og er talið að um heimsmet sé að ræða. Tollvörður á Dulles sagði AP fréttastofunni að hann hefði aldrei áður heyrt um að manneskja hafi innbyrt jafn mikið af fíkniefnum áður.

„Ef tilfellum sem þessum fjölgar erum við sannarlega í vanda staddir," sagði Christopher Hess, stjórnandi Tollgæslunnar í Washington. „Líf konunnar var sannarlega í hættu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×