Erlent

Nær 80 börnum bjargað úr vændi í Bandaríkjunum

Nær áttatíu börnum var bjargað úr vændi í viðamikilli aðgerð lögregluyfirvalda í Bandaríkjunum um helgina.

Rúmlega hundrað manns voru handteknir í þessari aðgerð grunaðir um að vera melludólgar. Bandaríska alríkislögreglan FBI greindi frá aðgerðinni í gærkvöldi en alls tóku 2.500 lögreglumenn þátt í henni og náði hún til 57 borga í landinu.

Börnin sem bjargað var eru á aldrinum 13 til 17 ára. Ein af þessu stúlkum segir að hún hafi verið neydd út í vændi aðeins 11 ára gömul. Talið er að um 100.000 börn séu neydd í vændi í Bandaríkjunum á hverju ári.

Netið er mikið notað til að lokka börn í vændi með gylliboðum sem síðan enda með skelfingu fyrir þau börn sem falla fyrir slíku.

Í bandarískum fjölmiðlum er haft eftir Kevin Perkins aðstoðarforstjóra FBI að skipulögð glæpasamtök nýti sér börn til vændis og að börnin séu stöðugt flutt milli ríkja í Bandaríkjunum til að þjónusta viðskiptavini þessara glæpasamtaka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×