Skoðun

Jöfnuður – markmið friðar

Gunnar Hersveinn skrifar
Allt sem við viljum er friður á jörð! Friðurinn stendur til boða – ef við viljum. Afl friðar er jöfnuður og gjafmildi. Afl ófriðar er græðgi og heimska.

Græðgin skilur fólk að og skapar yfirstétt og undirskipun, ríkidæmi og fátækt og hvaðeina annað sem reisir múra á milli manna og þjóða. Græðgin og heimskan eru auga og eyra ófriðar.

Friður er lærdómsferli með jöfnuð að leiðarljósi. Hann kemur böndum á agaleysi og eyðir tortryggni sem lengir bilið á milli manna og þjóða. Hvar sem ójöfnuður fær að vaxa brýst fyrr eða síðar út styrjöld. Friðarmenning er á hinn bóginn ljósið út úr óreiðu heimskunnar.

Andstætt því sem ætla mætti, er gjöfin lykillinn að velgengni og farsæld þjóðar: að gefa öðrum af bók-, verk- og siðviti sínu. Engu skiptir hvort sú þjóð sem gefur er rík eða í fjármálakreppu, hún getur hjálpað – ef hún vill – og markmiðið er að skapa jöfnuð og velsæld annarra.

Niður aldanna vitnar um lögmál gjafarinnar: gjöf gefin af góðsemi hefur gæfu að geyma. Þjóð sem tekur og traðkar á öðrum skapar aftur á móti vítahring haturs og ófriðar. Farsæld felst í því að gefa öðrum en sá tapar sem tekur frá öðrum ófrjálsri hendi og kúgar.

Öll viðleitni sem snýst um friðarmenningu hefur jöfnuð að mælikvarða: að stytta bil á milli manna, hópa og þjóða í öllum málaflokkum og draga úr stéttaskiptingu. Það er sterk fylgni milli réttlætis og jafnaðar.

Leiðin út úr kreppunni á Íslandi felst ekki í samkeppni um sæti á lista yfir ríkustu eða frjálsustu þjóðir heims, heldur í því að gefa og vinna með þeim þjóðum sem þjást, búa við skort á skólum, sjúkrahúsum, vatnsbrunnum, orkulindum, tækniþekkingu, stjórnsýslu, lýðræði…

Ef við eflum þróunarsamvinnu og hjálpsemi vinnum við um leið að jöfnuði, réttlæti og friðarmenningu í heiminum. Ef þjóð gefur öðrum þjóðum af gnægð sinni með það að markmiði að bæta heiminn – batnar hún sjálf.




Skoðun

Sjá meira


×