Skoðun

Hvað vill Ólafur Ragnar?

Haukur Sigurðsson skrifar
Í síðasta nýársávarpi sínu gaf forseti sterklega í skyn að þetta yrði hans síðasta kjörtímabil. Orðalagið virðist ekki hafa náð nógu vel til hlustenda en texti forseta um þetta féll svo vel að því sem á undan var komið að það átti ekki að misskiljast. Sumir töldu að þarna væri smuga þar sem forseti hefði ekki sagt: „Þetta verður mitt síðasta kjörtímabil í þessu embætti,” eða eitthvað slíkt.

Nú hófst söfnun undirskrifta, sem forseti hefur strax frétt af ef hann hefur ekki vitað af henni fyrir fram. Vildi hann ekki sitja fimmta kjörtímabilið gat hann gefið út yfirlýsingu strax að hann myndi ekki bjóða sig fram. Þarna var Ólafur kominn í mótsögn við sjálfan sig. Næsti þáttur í þessu leikriti er þegar forseta voru fengnir undirskriftalistar og hann leggur höfuðið í bleyti og kemst að þeirri niðurstöðu að þjóðin vilji að hann fari fram. Hann segir að vandamál séu framundan og skírskotar til Evrópumálanna og óttans við Evrópusambandið.

Hvernig ætlar forsetinn að koma inn í þá umræðu? Með því að beita synjunarvaldinu af miklum dugnaði? Stjórnskipunin gerir ekki ráð fyrir að forseti verði virkur í stjórnmálum. Lengst gekk Ólafur Ragnar á þeirri braut þegar hann reis gegn vilja meirihluta þingsins sem hafði samþykkt nýjan samning um ICESAVE og þeir sem best þekktu til töldu að lengra yrði ekki náð með samningum. Jafnvel að þjóðin myndi ekki þurfa að borga því að þrotabú gamla Landsbankans ætti fyrir greiðslunni eins og raun hefur borið vitni.

Forseti reis gegn þessari niðurstöðu. Telur hann sjálfsagt að rísa gegn meirihluta Alþingis þegar honum hentar? Með þessu er embætti forseta orðið rammpólitískt og forseti að taka sér stöðu utan laga. Þar fyrir utan má minna á að hann lýsti yfir, þegar hann tilkynnti framboð sitt, að hann myndi jafnvel aðeins sitja tvö ár, hálft kjörtímabil.

Ekki er gert ráð fyrir þessu í stjórnskipun. Hvernig hefði mönnum líkað ef Kristján Eldjárn hefði lýst því yfir 1976 að hann hygðist aðeins sitja næstu tvö ár og enga skýringu gefið? Það er reyndar útilokað að það hefði gerst. Nú eru komnir fram frambjóðendur aðrir en Ólafur sem hefur auðvitað greinilegt forskot. Eiga þeir nú að fara í framboðsleik, ná ekki kjöri núna og fara svo aftur fram að tveimur árum liðnum? Svona leikur forseti sér með fólk, treður á stjórnskipun og getur hlegið á hliðarlínunni.

Þar sem Ólafur Ragnar Grímsson ætlar að halda áfram á sömu braut einkastjórnmála, verða forseti sérhagsmunaafla og einangrunarsinna ber honum skylda til að gera þjóðinni grein fyrir því að hann ætli sér ekki að verða forseti allrar þjóðarinnar. Nema hann hafi lyst á að skipta um skoðun í þessu stóra máli?




Skoðun

Sjá meira


×