Skoðun

Evrópusambandið reynir að stíga ölduna

Kristján Vigfússon skrifar
Það má halda því fram að Evrópusambandið hafi verið byggt upp með það að markmiði að leysa kreppur. Lengstum var það mál manna að sambandið yrði ekki stærra en tólf ríkja samband. Á aðeins tíu ára tímabili fór fjöldi aðildarríkja úr tólf í tuttugu og sjö ríki. Það hefur því verið verkefni Evrópusambandsins að takast á við og leysa kreppur innan álfunnar.

Stríðskreppan leyst

Ef litið er til baka til miðrar síðustu aldar þá hafði álfan logað í ófriði nær samfellt í hálfa öld með tilheyrandi uppgangi öfga og þjóðernishyggju. Evrópusambandinu tókst að tryggja frið í Evrópu með því að samtengja mikilvægustu ríki álfunnar þéttum efnahagslegum böndum. Hugmyndafræðin sem sambandið byggir á virkaði og sambandinu tókst að takast á við mestu kreppu allra tíma í efnahagslegum, pólitískum, félagslegum og hernaðarlegum skilningi. Þeim sem fjalla um Evrópusambandið og eru því mótdrægir hættir oft til að gleyma þessum árangri. En ekki hafa orðið vopnuð átök milli Evrópusambandsríkja frá þessum tíma.

Efnahagslegri stöðnun hrundið

Næsta stóra kreppa sem sambandið stóð frammi fyrir var efnahagsleg stöðnun áttunda og níunda áratugarins en enginn hagvöxtur var í heild sinni hjá aðildarríkjunum frá árinu 1975 til ársins 1995. Við þessu var brugðist með að setja fram hugmyndir um sameiginlegan innri markað sem varð að veruleika 1993. Í framhaldi var unnið að því að koma upp sameiginlegum gjaldmiðli fyrir svæðið sem endaði með upptöku evrunnar árið 2000. Sameiginlegum gjaldmiðli sem fylgdi þó sá bögull skammrifi að ríkisfjármálin voru ekki samræmd á milli aðildarríkjanna sem svo sannarlega hefur dregið dilk á eftir sér.

Járntjaldið fellur

Árið 1989 markaði stór tímamót í sögu Evrópu er Berlínarmúrinn féll og ríki Austur–Evrópu veltu af sér oki kommúnismans og í framhaldinu liðuðust Sovétríkin upp í 15 ríki. Ásýnd álfunnar gjörbreyttist á örskömmum tíma, nýfrelsuð og sjálfstæð ríki Austur-Evrópu leituðu skjóls í Evrópusambandinu. Með inntöku þeirra í sambandið tókst að tryggja stöðugleika í álfunni, stöðugleika sem ríkir enn. Norrænu ríkin Finnland og Svíþjóð leituðu síðar skjóls í sambandinu í kjölfar bankakreppu á Norðurlöndunum sem lék þau mjög illa. Finnar nýttu einnig tækifærið til að slíta sig frá stóra bróður í austri.

Balkanskaginn springur

Átök blossuðu upp á Balkanskaga í kjölfar þess að Júgóslavía liðaðist í sundur árið 1990. Króatía og Slóvenía urðu fyrst til að lýsa yfir sjálfstæði árið 1991 en átök á svæðinu leiddu til mikilla hörmunga í bakgarði Evrópusambandsins. Evrópusambandinu tókst á alltof löngum tíma reyndar að stilla til friðar og hafa ríkin síðan leitað eitt af öðru inn í sambandið. Slóvenía er þegar aðili að sambandinu og Króatía hefur samþykkt aðild og gengur formlega inn á næsta ári. Næsta bylgja stendur nú yfir. Fimm ríki eru í einhvers konar aðildarferli og önnur fjögur hafa sóst eftir aðild og ber þar mikið á fyrrverandi ríkjum Júgóslavíu. Hvort Úkraína, Hvíta-Rússland, Rússland og ríkin sem liggja að Kaspíahafi og Svartahafi eigi eftir að sækja um inngöngu á tíminn eftir að leiða í ljós en það er ekki óhugsandi.

Úr tólf í tuttugu og sjö aðildarríki á tíu árum

Lengstum var það mál manna að sambandið yrði ekki stærra en tólf ríkja samband en það hefur breyst á skömmum tíma eins og hér hefur verið rakið. Á aðeins tíu ára tímabili fór fjöldi aðildarríkja úr tólf í tuttugu og sjö ríki. Það stefnir í að aðildarríki sambandsins verði þrjátíu og fimm talsins innan fárra ára. Segja má án þess á nokkurn sé hallað að sambandinu hafi tekist vel fram til skuldakreppunar nú að tryggja efnahagslega, pólitískan og félagslegan stöðugleika í Evrópu. Skuldakreppan nú er því mikilvægur prófsteinn á getu sambandsins til að leysa úr kreppum og líklegt er að sambandið þurfi að dýpka fjármálasamstarfið verulega til að geta byggt upp nauðsynlegan stöðugleika sem þarf að ríkja innan svæðisins til lengri tíma litið.




Skoðun

Sjá meira


×