Bandaríski aðgerðarsinnahópurinn, Invisible Children, hafa gert framhald heimildarmyndarinnar um Joseph Kony. Fyrri myndin varð heimsfræg á svipstundu en yfir 100 milljónir horfðu á myndina á netinu. Hún var hinsvegar harðlega gagnrýnd í kjölfarið fyrir að eindfalda ástandið í Úganda og láta eins og þar geisaði enn borgarastyrjöld. Það var nefnilega aldrei tekið fram í myndinni að Kony, sem er sakaður um að beita fyrir sér barnahermönnum og hneppa barnungar stúlkur í vændi, væri farinn frá Úganda og að áhrif hans væru mun minni en þegar þar ríkti ófriður.
Upphaflegu myndinni var ætlað að varpa ljósi á voðaverk Josephs Kony en hann er leiðtogi Andspyrnuhers drottins (LRA). Kony er eftirlýstur af Alþjóðastríðsglæpadómstólnum fyrir glæpi gegn mannkyni í Úganda.
Í framhaldinu einbeita kvikmyndagerðarmennirnir sér meira að því að ræða við ráðamenn í Úganda. Þá vekur talsverða athygli að forsvarsmaður samtakanna og leikstjóri fyrri myndarinnar, Jason Russell, kemur ekki nálægt framhaldinu. Hann komst síðast í heimsfréttirnar þar sem hann fékk taugaáfall út á miðri götu í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Þar strunsaði hann nakinn um götur San Diego og var með háreysti.
Hægt er að horfa á myndina með því að ýta á þessa slóð.
