Erlent

Maðurinn sem myndin Goodfellas byggði á er látinn

Mafíubófinn Henry Hill sem var undirstaða myndarinnar Goodfellas er látinn 69 ára að aldri. Vitnisburður hans á sínum tíma kom 50 mafíuforingjum og bófum undir lás og slá.

Henry Hill lést á heimili sínu í Los Angeles af hjartaslagi. Leikstjórinn Martin Scorsese gerði myndina Goodfellas eftir ævisögu Hill og telst myndin til betri verka leikstjórans en Ray Liotta lék aðalhlutverkið.

Hill er af fátæku fólki í Brooklyn kominn en hann hóf störf fyrir mafíuna sem sendill aðeins 14 ára gamall. Hann var handtekinn í fyrsta sinn 16 ára gamall þegar hann reyndi að ræna vetrardekkjum fyrir bíl eiginkonu mafíuforingjans Vito Tuddy Vario. Hann var síðan á framabraut í mafíunni og átti m.a. hlut að hinu alræmda Lufthansa ráni á John F. Kennedy flugvellinum árið 1978.

Síðar gerðist Hill vitni fyrir FBI og vitnisburður hans kom 50 foringjum og bófum mafíunnar í fangelsi. Hann hvarf síðan inn í vitnavernd FBI en gat ekki haldið sig frá glæpunum. Eftir margar handtökur fyrir ýmsa glæpi var honum sparkað úr vitnaverndinni. Hill lifði rólegu lífi með kærustu sinni síðustu ár sín í Los Angeles.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×