Erlent

Þokast í umbótaátt í Búrma

Hundruð pólitískra fanga var sleppt úr haldi í Búrma í gær. Landið þykir þokast í átt til umbóta.
Hundruð pólitískra fanga var sleppt úr haldi í Búrma í gær. Landið þykir þokast í átt til umbóta. fréttablaðið/ap
Bandaríkjastjórn mun á næstunni skipa sendiherra í Búrma í fyrsta sinn frá árinu 1990.

Það markar nokkur tímamót fyrir Búrma sem hefur verið að miklu leyti einangrað frá umheiminum sökum mannréttindabrota herforingjastjórnarinnar sem hefur lengi ráðið þar ríkjum.

Bandaríkin kölluðu sendiherra sinn heim á sínum tíma eftir að herstjórnin ógilti kosningarnar þar sem lýðræðisflokkur Aung San Suu Kyi sigraði.

Margt hefur gerst þar síðustu daga þar sem stjórnvöld slepptu í gær 651 pólitískum fanga og í fyrradag var skrifað undir vopnahléssamning við uppreisnarsamtök Karena eftir 60 ára vopnaða baráttu fyrir auknu sjálfræði.

Ríkisstjórnin sem tók við völdum í landinu eftir kosningar í lok 2010 hefur lagt í ýmsar úrbætur til að reyna að binda enda á einangrun og viðskiptaþvinganir sem Vesturlönd hafa beitt vegna ástandsins þar.

Undanfarið hafa samskiptin við Búrma aukist þar sem utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Bretlands hafa sótt landið heim síðustu vikur. - þj, þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×