Skoðun

Niðurrif Hamraneslínu var tryggt

Rósa Guðbjartsdóttir skrifar
Allir Hafnfirðingar eru sammála um nauðsyn þess að raflínur í Vallarhverfinu verði teknar niður hið fyrsta enda liggja þær nærri byggð og hamla þróun skipulags og uppbyggingar á svæðinu til framtíðar. Hafnarfjarðarbær og Landsnet gerðu árið 2009 samkomulag um uppbyggingu flutnings raforkukerfisins og þann þátt framkvæmdarinnar sem snýr að Hafnfirðingum, þ.e. að Hamraneslínur 1 og 2 verði fjarlægðar og það fyrir árið 2011. Fyrirvari var þó gerður um efnahagslegar forsendur framkvæmdarinnar sem byggja á raforkusölu til Suðurnesja.

Forsaga málsins

Hafnarfjarðarbær lagði í apríl 2006 fram kröfu um að Landsnet hf. tæki niður raflínurnar og að þær yrðu lagðar í jarðstreng. Samningar þar um náðust þó ekki vegna mikils kostnaðar við framkvæmdina. Í aðdraganda íbúakosninga 2007 vegna fyrirhugaðrar stækkunar álversins í Straumsvík bauðst Alcan til að greiða kostnað við niðurrif línumannvirkja við Vallarhverfið ásamt stórum hluta spennustöðvarinnar við Hamranes. Einnig ætlaði Alcan að setja aðrar línur fyrir ofan byggðina í jörð við Kaldárselsveg að spennustöðinni sem var svo ætlað að þjóna eingöngu íbúðabyggðinni á svæðinu. Fyrirvari var á tilboði Alcan sem fólst í því að Hafnfirðingar samþykktu breytingar á auglýstu deiliskipulagi sem var forsenda stækkunar álversins.

Mikilvæg tímamörk

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir þeim tímamörkum sem hafa verið sett í þessu máli og hvers vegna þau hafa ekki staðist. Fyrstu tímamörkin eru 31. mars 2007 þegar Hafnfirðingar höfnuðu stækkun álversins en allir vita hver afstaða VG var í því máli og einnig að bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar þögðu þunnu hljóði í aðdraganda kosningarinnar þó svo að ýmsir þeirra hafi síðan lýst vonbrigðum sínum með úrslit kosningarinnar. Til upprifjunar þá má geta þess að áætlaður tekjuauki Hafnarfjarðar vegna stækkunarinnar hefði verið um einn milljarður á ári auk þess sem mörg hundruð starfa hefðu orðið til. Samkomulagið við Landsnet frá 2009 hefur ekki haldið þar sem engin uppbygging orkufreks iðnaðar hefur farið af stað á Suðurnesjum sem má skrifa að stórum hluta á ríkisstjórn VG og Samfylkingar sem með aðgerðum og aðgerðarleysi hefur staðið í vegi fyrir uppbyggingu atvinnulífs á Suðurnesjum sem og annars staðar á landinu.

Viðvera Vinstri Grænna og Samfylkingar

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði og oddviti VG, skrifar grein í Fréttablaðið 10. nóvember sl. þar sem hún lýsir því hve stolt hún er af viðauka sem nýlega var gerður við umrætt samkomulag Hafnarfjarðar og Landsnets. Í viðaukanum er búið að draga á langinn tímamörkin, eða allt til ársins 2020. Þar sem minnihlutinn fékk enga aðkomu að gerð viðaukans sátum við hjá við afgreiðslu hans í bæjarstjórn.

Það er hins vegar ljóst að með viðveru sinni í bæjar- og ríkisstjórn er það á ábyrgð VG og Samfylkingar að ekki sé nú þegar búið að fjarlægja Hamraneslínur ásamt spennuvirki við Hamranes. Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði og á landsvísu hefur ávallt verið reiðubúinn til að styðja við mál er varða uppbyggingu atvinnulífsins sem hefur verið og er grunnforsenda þess að línurnar hverfi og ekki síður að Hafnfirðingar svo og allir Íslendingar geti lifað heilbrigðu og góðu lífi.




Skoðun

Sjá meira


×