Erlent

Endurheimti líf sitt eftir andlitságræðslu

Richard Lee Norris
Richard Lee Norris mynd/AFP
Bandaríkjamaðurinn Richard Lee Norris fékk nýtt andlit í síðustu viku. Skurðaðgerðin var ein sú flóknasta sem framkvæmd hefur verið og segja læknar að bati Norris sé með ólíkindum.

Norris varð fyrir slysaskoti fyrir 15 árum. Hann slasaðist alvarlega á andliti en hann missti nef sitt, tennur og kjálka. Síðustu ár hefur Norris farið huldu höfði. Hann hefur gengið með grímu og reynt að forðast mannleg samskipti.

„Það var óhugnanlega reynsla að horfa á hann" sagði Dr. Eduardo Rodriguez en hann stjórnaði aðgerðinni. „Fólk starði á hann. En núna er engin ástæða til að stara - þetta er í raun ótrúlegt."

Aðgerðin tók 36 klukkutíma. Norris hafði áður gengist undir fjölda lýtaaðgerða og þurftu Dr. Rodriguez og samstarfsmenn hans að fjarlægja gríðarlegt magn örvefja úr andliti hans.

Norris fékk nýjar tennur ásamt efri og neðri kjálka. Þá voru örvefir fjarlægðir af höfuðkúpu hans til að skapa rými fyrir nýjum vef.

Þremur dögum eftir aðgerðina fékk Norris lyktarskyn. Hann hefur endurheimt tilfinningu í andliti sínu og getur tannburstað sig. Þá er hann einnig fær um að raka sig í fyrsta sinn í 15 ár.

Ekki er vitað hver líffæragafinn var en Dr. Rodriguez sagði að líffæri hans hefðu bjargað nokkrum mannslífum. Sérstakt leyfi þurfti að fá frá fjölskyldu líffæragjafans vegna andlitságræðslunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×