Handbolti

Rúta stelpnanna strandaði fyrir framan hótelið | myndband

Óskar Ófeigur Jónsson í Vrsac skrifar
Það er óhætt að segja að stelpurnar okkar hafi mætt með látum á hótelið sitt í Vrsac í hádeginu. Þær voru reyndar stilltar og prúðar eins og venjulega en það gekk mikið á hjá rútubílsjóranum. Íslenska kvennalandsliðið í handbolta spilar sinn fyrsta leik á EM í Serbíu þegar liðið mætir Svartfjallalandi á morgun

Rútan mætti á staðinn í mikilli lögreglufylgd en fjölmargir lögreglumenn komu þó ekki í veg fyrir að rútan hreinlega strandaði á planinu fyrir framan hótelið. Stelpurnar þurftu að bíða þolinmóðar inn í rútu á meðan bílstjórinn beitti öllum brögðum til þess að losa bílinn sem sat pikkfastur.

Það gekk samt ekkert og loks hleypti serbneski rútubílstjórinn stelpunum út. Þær vissu varla hvaðan á sig stóð veðrið en tóku fljótlega upp myndavélarnar enda ekki á hverjum degi sem liðsrúta liðsins lendir á slíkum villigötum.

Þess ber að geta að allar stelpurnar og starfsmenn liðsins sluppu ómeidd frá þessu óhappi og rútan losnaði fljótlega eftir að stelpurnar og farangurinn var kominn frá borði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×