Innlent

Óhappið á brúnni í Kaupmannahöfn: "Þetta var mikið sjokk fyrir okkur bæði“

Karen Kjartansdóttir skrifar
Maðurinn sem stakk sér á eftir vinkonu sinni eftir að hún datt af brú í Kaupmannahöfn um helgina segir þau bæði á batavegi þótt þau séu nokkuð marin á líkama og sál eftir volkið. Hann segist lítið muna annað en hve myrkrið var mikið í vatninu.

Ásgeir Þór Jónsson, sem stakk sér á eftir vinkonu sinni eftir að hún féll fram af brú í Kaupmannahöfn um helgina segir þau bæði á batavegi þótt þau séu nokkuð marin á líkama og sál eftir volkið. Hann segist lítið muna annað en hve myrkrið var mikið í vatninu enda hafi sjokkið verið mikið.

Óhappið varð á Dronning Louise brúnni aðfaranótt laugardags. Ásgeiri var fljótlega bjargað upp úr vatninu en læknar telja að hann hafi verið ofan í því í um það bil korter. Hins vegar gekk erfiðlega að finna konuna þar sem hún hafði borist undir brúna. Að lokum var þyrla og lið kafara kallað út til að finna konuna. Talið er að hún hafi verið í um 40 mínútur í vatninu áður en kafarar fundu hana og létu hífa upp í björgunarþyrlu sem síðan flutti hana á spítala.

Ásgeir segir þau lítið muna eftir því sem gerðist en líklega hafi hún hrasað eftir að hafa hafa stoppað á vinsælum áningarstað á brúnni. "Við vorum upp að brúnni og þetta er vinsæll staður til að stoppa á og slappa aðeins af og hún hefur eflaust hrunið niður af hrandriðinu. Þar kallaði ég á hjálp og henti mér síðan ofan í," segir Ásgeir. Hann hafi ekki átt annarra kosta völ en að stökkva á eftir henni þótt hann sé að jafna sig eftir slæmt handleggsbrot og hafi síður en svo verið í hentugum klæðnaði fyrir svona volk.

„Ég var í tólf kílóa leðurjakka og hann var svo þungur að hann var að draga mig niður og ég átti erfitt með að halda mér á floti. Ég er mjög aumur í höndinni en ég hef verið að jafna mig eftir opið beinbrot og ég hef væntanlega meitt mig við að reyna að klóra í bakkann," segir hann.

Þegar fréttastofa náði tali af Ásgeiri var hann á leið til læknis en hann segir þau bæði undir eftirliti þótt bæði séu þau útkrifuð af sjúkrahúsinu. Aðstandendur konunnar segja að henni hafi verið haldið sofandi í tíu klukkustundir í öndunarvél og undir hitateppi.

Frost var um nóttina og minnstu munaði að björgunarmenn hefðu ekki áttað sig á því að konan var ofan í en Ásgeir var sem betur fer með meðvitund og gat látið vita af henni.

Danska fréttastofan TV2 segir í dag að ef rannsókn leiði í ljós að konan hafi stokkið ofan í vatnið gæti hún þurft að greiða fyrir björgunaraðgerðirnar. Ásgeir hafði ekki heyrt þessar fréttir þegar Stöð 2 ræddi við hann. Hann vissi ekki annað en hún hafi hrasað þótt hann muni lítið eftir atvikinu. Aðstandendur konunnar höfðu samband við fréttastofu eftir fréttir og sögðu engar slíkar getgátur hafa verið uppi nema meðal fréttamanna TV2.

„Ég held að heilinn virki þannig að hann geti lokað á svona, þetta var svo mikið sjokk fyrir okkur bæði og við vorum bæði í langan tíma ofan í ísköldu vatninu. Mig rámar bara í eitthvað svart, svartan sjó eða eitthvað þannig," segir Ásgeir sem segist einnig ráma í að hafa í ofboði leitað að taki og stúlkunni sem hann stökk á eftir.

Hann segir litla lýsingu á svæðinu og sú tíra sem þó sé lýsi ekki upp vatnið. Mykrið var því algjört ofan í vatninu og áfallið mikið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×