Handbolti

Stella: Farnar að kannast aðeins við þær

Óskar Ófeigur Jónsson í Vrsac skrifar
Stella Sigurðardóttir
Stella Sigurðardóttir Mynd/Stefán
Stella Sigurðardóttir, skytta íslenska kvennaliðsins í handbolta, er klár í fyrsta leikinn við Svartfjallaland í kvöld en íslenska liðið hefur þá leik í sínum riðli á EM í handbolta kvenna í Serbíu.

„Það er rosagóð stemning í hópnum. Við erum loksins komnar á leiðarenda og á fínt hótel. Nú er bara stutt í þetta og nú fer fiðringurinn að koma. Við erum flestar búnar að upplifa svona stórmót áður þannig að þetta er ekkert nýtt fyrir okkur. Við ættum að ráða við spennustigið núna," segir Stella.

„Það eru nokkrar sem eru að fara á sitt fyrsta stórmót en kjarninn er sá sami þannig að við ættum að kannast við aðstæðurnar. Við erum með gott og flott lið og ætlum okkur stóra hluti. Við ætlum að koma á óvart en svo verður bara að koma í ljós hvernig þetta á eftir að þróast. Það eru miklar væntingar til liðsins eftir að okkur gekk svona vel í Brasilíu og við ætlum að standa undir þeim," segir Stella.

Íslenska liðið hefur mætt Svartfjallalandi á síðustu tveimur stórmótum sínum og unnu 22-21 sigur í leik þjóðanna á HM í Brasilíu í fyrra.

„Við erum búnar að spila nokkrum sinnum við þær á síðustu árum og erum farnar að kannast aðeins við þær. Þær eru með brothættara lið þannig að við ættum alveg að geta sýnt sama leik og við gerðum á HM í fyrra. Þær eru með hörkulið og við vitum það alveg. Við þurfum að mæta tilbúnar til leiks og gera okkar besta," segir Stella.

Stella hefur fengið stærra hlutverk í liðinu í ár og er langmarkahæsti leikmaður liðsins þar sem af er á þessu ári.

„Ég er mjög ánægð með mitt hlutverk bæði varnar- og sóknarlega. Ég þarf bara að halda áfram að sýna mig og sanna mig fyrir þjálfaranum og gera mitt besta," segir Stella en fagnar bara meiri samkeppni um stöðurnar í liðinu.

„Það er bara gott að fá fleiri inn. Þetta er langt og strangt mót og rosa gott að hafa breidd í þessu. Við getum allar leyst hverja aðra af og við munum örugglega allar fá fínan spilatíma," sagði Stella.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×