Handbolti

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Ísland - Svartfjallaland 16-26

Óskar Ófeigur Jónsson í Vrsac skrifar
Rakel Dögg Bragadóttir
Rakel Dögg Bragadóttir Mynd/Stefán
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta fékk skell í fyrsta leik sínum á Evrópumótinu í Serbíu þegar liðið tapaði með tíu marka mun fyrir sterku liði Svartfjallalands, 16-26, liðinu sem vann silfur á Ólympíuleikunum í London í ágúst og er til alls líklegt á EM.

Jenný Ásmundsdóttir og varnarleikurinn hélt íslenska liðinu inn í leiknum í fyrri hálfleik en lið Svartfjallalands skoraði fimm fyrstu mörk seinni hálfleiks og gekk nánast frá leiknum á átta mínútna upphafskafla hans.

Selpurnar frá Svartfjallalandi börðu okkar stelpur eins og harðfisk fram eftir leik en það voru þó íslensku stelpurnar sem fuku útaf fyrir klaufaleg brot. Það átti sinn þátt í að stelpurnar misstu móðinn í sóknarleiknum en vörnin stóð lengstum fyrir sínu og Jenný Ásmundsdóttir, markvörður, var besti maður liðsins í leiknum. Jenný varði alls 19 skot í kvöld þar af 10 þeirra í fyrri hálfleik.

Rakel Dögg Bragadóttir var markahæst í íslenska liðinu með fimm mörk en Þórey Rósa Stefánsdóttir skoraði þrjú mörk. Stella Sigurðardóttir og Karen Knútsdóttir nýttu hinsvegar aðeins 2 af 15 skotum sínum í leiknum.

Íslenska liðið byrjaði ekki vel því stelpurnar töpuðu tveimur boltum á fyrstu mínútunni og lentu strax 1-0 undir eftir 49 sekúndur þrátt fyrir að hafa byrjað með boltann. Íslenska liðið náði að jafna leikinn í þrígang með góðum hröðum sóknum (1-1, 2-2, 3-3) og fékk síðan tvo tækifæri til að komast yfir, það besta þegar Karen Knútsdóttir lét verja frá sér vítakast í stöðunni 2-2.

Stelpurnar frá Svartfjallalandi spiluðu fast í vörninni og voru mjög öflugar í að keyra á íslenska liðið í annarri bylgju með Milena Knezevic í broddi fylkingar. Svartfjallaland náði fljótlega tveggja marka forystu og þegar þær komus í 8-5 eftir nokkrar vandræðalegar sóknir íslenska liðsins ákvað Ágúst Jóhannsson þjálfari að taka leikhlé.

Íslenska vörnin og Jenný Ásmundsdóttir markvörður héldu íslenska liðinu inn í leiknum á næstu mínútum eftir leikhléið en sóknarleikurinn gekk ekki vel. Þórey Rut Stefánsdóttir skoraði reyndar næstu tvö mörk leiksins og minnkaði muninn í eitt mark, 8-7. Seinna markið var langþráð hraðaupphlaupsmark eftir markvörslu og sendingu fram frá Jenný.

Svartfjallaland skoraði ekki í rúmar níu mínútur og það þótt að íslenska liðið missti mann af velli á þessum kafla. Ísinn var loksins brotinn af vítalínunni þegar Katarina Bulatovic kom Svartfjallalandi í 9-7 þegar fimm mínútur voru til hálfleiks.

Skyttur íslenska liðsins komust lítið áleiðis og umrædd Bulatovic kom muninum upp í þrjú mörk á ný, 10-7. Ágúst gaf nokkrum leikmönnum tækifæri fyrir utan en ekkert gekk og íslenska liðið nýtti aðeins 4 af 16 langskotum sínum í hálfeiknum. Ramune Pekarskyte kom reyndar ekkert inn á í fyrri hálfleiknum.

Jenný varði tvö síðustu skot hálfleiksins frá Bulatovic og sá til þess að munurinn hélst í þremur mörkum til hálfleiks. Jenný átti frábæran fyrri hálfleik og varði þá tíu skot eða helming þeirra skota sem hún fékk á sig. Marina Vukcevic í hinu markinu var einnig öflug.

Svartfjallaland skoraði fyrsta mark seinni hálfeiks en það kom ekki fyrr en eftir þrjár og hálfa mínútu þegar íslenska liðið var orðið manni færri. Jovanka Radicevic var nú kominn í hægra hornið og byrjaði því að skora tvö fyrstu mörk hálfleiksins og Ágúst tók síðan leikhlé eftir að Svartfjallaland komst sex mörkum yfir, 13-7. Ramune hafði þá klikkað á tveimur fyrstu skotum sínum í leiknum.

Svartfjallaland vann fyrstu átta mínútur hálfleiks 5-0 og komst átta mörkum yfir. Rakel Dögg Bragadóttir kom íslenska liðinu loksins á blað eftir rúmar átta mínútur, minnkaði muninn í 8-15 og bætti síðan við öðru marki skömmu síðar.

Rakel var allt í öllu á þessum kafla og hjálpaði íslenska liðinu að minnka muninn í 16-11 með þremur mörkum og einni stoðsendingu á tæpum fjórum mínútum.

Íslenska liðið náði ekki að nýta dauðafæri, manni fleiri í stöðunni 16-11 og komust á endanum ekki nær. Íslenska liðið nýtti ekki dauðafærin þegar sóknin gekk betur, Svartfjallaland refsaði síðan fyrir hver mistök og munurinn varð á endanum tíu mörk.

Ágúst: Þær eru númeri of stórar
Mynd/Stefán
Ágúst Þór Jóhannsson, landsliðsþjálfari, var að sjálfsögðu ekki ánægður eftir tíu marka tap á móti Svartfjallalandi í kvöld, 16-26, í fyrsta leik Íslands á EM kvenna í handbolta í Serbíu.

„Við vorum að spila undir getu. Eitt er að tapa á móti frábæru liði og silfurhöfunum frá því á Ólympíuleikunum í sumar en mér fannst mínar stelpur ekki vera nógu harðar og hreinlega frekar linar sóknarlega. Við gáfum pínu eftir og bökkuðum á undan baráttunni," sagði Ágúst og bætti við:

„Í ofanálag vorum við að klára illa þegar við komum okkur í færi. Markmaðurinn er besti maðurinn hjá þeim með 23 bolta varða og það er hrikalega erfitt. Við erum aldrei almennilega í takt sóknarlega á móti þeim," sagði Ágúst.

„Við þurfum heldur betur að gera betur á morgun. Það eina jákvæða við þetta er að ég veit að við spilum ekki tvo leiki svona illa, það verða ekki aftur svona margar sem spila undir getu," sagði Ágúst en íslenska landsliðið mætti Svartfjallalandi í hefndarhug í kvöld.

„Við vissum að þetta væri hrikalega erfitt verkefni þó að við höfum að sjálfsögðu farið inn í þennan leik með því hugarfari að vinna hann. Þær eru númeri of stórar og við þurfum bara að einbeita okkur að næsta verkefni sem eru Rúmenar. Nú þurfum við að nota tímann og undirbúa okkur að kostgjæfni fyrir það," sagði Ágúst sem þarf að rífa upp sínar stelpur í kvöld.

„Nú fer maður og talar við þær. Við reynum að peppa okkur saman og fara í sjúkraþjálfun og annað í kvöld. Við þurfum að vinna aðeins í vídeó-vinnu og undirbúa okkur. Við sjáum til hvort við getum ekki reynt að töfra eitthvað fram á morgun. Við getum betur en þetta," sagði Ágúst.

Stella: Getur ekki orðið lélegra en þetta
Mynd/Stefán
„Frá fyrstu mínútu var enginn taktur í sókninni og við áttum mjög erfitt uppdráttar. Það var erfitt að skora mörk og fengum bara eitt eða tvö hraðaupphlaupsmörk sem er bara alltof lítið," sagði Stella Sigurðardóttir sem náði sér ekki á strik í kvöld og nýtti aðeins 1 af 8 skotum sínum.

„Varnarleikurinn í seinni hálfleik var ekki nógu góður og þá féll allt með þeim. Það gekk síðan ekkert upp í seinni hálfleik," sagði Stella en leikur íslenska liðsins hrundi hreinlega í lokin.

„Þær náðu alltaf að brjóta á okkur og sóknarleikurinn okkar fékk aldrei að halda floti. Þær voru alltaf að ná því að koma á blindu hliðina, brjóta á okkur og stoppa boltann. Það komst þar með aldrei neitt flot í sóknarleikinn," sagði Stella.

„Við vorum alveg búnar að skoða þetta og vissum að þær myndu gera þetta. Þetta var bara ekki okkar dagur," sagði Stella.

„Þetta er ekkert búið þótt að þetta hafi endað svona í fyrsta leik. Við erum með það góðan karakter í þessu liði að við komum brjálaðar til leiks á morgun," sagði Stella.

„Við förum bara á vídeófundi því við vitum ekki rosamikið um þær. Við eigum pottþétt eftir að greina andstæðinginn vel og það verða nokkrir vídeófundir á morgun. Þar verður farið vel yfir leikinn. Þetta getur ekki orðið lélegra en þetta og ég trúi ekki öðru en að þetta verði betra hjá okkur," sagði Stella.

Karen: Vantaði bara alla geðveiki í þetta hjá okkur
Mynd/Stefán
Karen Knútsdóttir átti ekki góðan leik í kvöld eins og margar aðrar í íslenska liðinu og var því heldur niðurlút í leikslok.

„Við vorum mjög lélegar sóknarlega. Við vorum oft að ná að spila fínt en það vantaði oft seinustu sendinguna og við vorum margar með hrikalega skotnýtingu. Vörnin var mjög fín á köflum og Jenný var að verja ágætlega. Við vorum mjög hægar upp og eiginlega staðar. Það vantaði bara alla geðveiki í þetta hjá okkur," sagði Karen.

„Við byrjuðum seinni hálfleikinn hrikalega illa og missum þær strax sjö mörkum á undan okkur. Við vorum að elta allan leikinn og það er mjög erfitt á móti svona sterku liði. Þær ætluðu ekki að mæta aftur í fyrsta leik og tapa á móti litla Íslandi. Þær voru mun betri heldur en við og mættu bara tilbúnar til leiks," sagði Karen.

Þórey Rósa: Ég væri tilbúin að spila þennan Rúmeníuleik núna
Mynd/Stefán
Þórey Rósa Stefánsdóttir skoraði þrjú mörk fyrir íslenska liðið í kvöld og stóð sig einna best sóknarlega en íslenska sóknin var ekki rismikil í þessum leik.

„Við þurfum bara að læra af þessum leik. Við vitum hvað við þurfum að gera betur. Við erum að spila fína vörn og mér fannst við berjast í vörninni allan tímann. Sóknarleikurinn er arfaslakur hjá okkur í dag," sagði Þórey Rósa Stefánsdóttir.

„Við vorum búnar að fara yfir þetta og vissum að þær myndu koma svona rjúkandi út í okkur. Ég hélt í byrjun að þetta væri stress en svo einhvern veginn náum við aldrei að rífa okkur frá þessu óöryggi. Við alltof mikið að hika í staðinn fyrir að taka ákvörðun," sagði Þórey.

„Ég væri tilbúin að spila þennan Rúmeníuleik núna því ég vil strax bæta fyrir þetta og sýna hvað í okkur býr. Við eigum allar fullt inni og þurfum að sýna okkar rétta andlit hvað varðar sendingar, baráttu, vilja og gleði. Við getum bætt alla þessa hluti og það er kannski ágætt ef Rúmenarnir vanmeta okkur núna og við getum komið og jarðað þær á morgun," sagði Þórey.

„Mér finnst þetta vera lið sem á að henta okkur ágætlega. Ef mig minnir þá spiluðum við jafnan leik á móti þeim á EM síðast og svo unnum við þær á HM. Þetta virðist vera lið sem hentar okkur ágætlega. Við vissum að þær kæmu í hefndarhug og ætluðum að brjóta það niður. Svona fór þetta bara í dag," sagði Þórey Rósa.

Rakel Dögg: Verðum að gera miklu, miklu betur
Mynd/Stefán
„Ég á ekki orð yfir þessum leik. Þegar maður skoðar undirbúninginn þá var hann til fyrirmyndar. Það voru allir með sitt á hreinu og við vorum búin að leikgreina andstæðinganna í tætlur og vissum nákvæmlega hverju við vorum að mæta," sagði Rakel Dögg Bragadóttir besti sóknarmaður íslenska liðsins í leiknum.

„Vörnin var fín en sóknarleikurinn var arfaslakur og við vorum með hrikalega léleg skot. Við vorum að klúðra dauðafærum og gera of mikið af tæknifeilum. Ég get ekki sett út á neitt í undirbúningnum því allir voru rétt stemmndir og enginn var stressaður. Ég veit ekki hvað gerðist," sagði Rakel.

„Það getur vel verið að þær hafi verið búnar að lesa okkur en mér fannst við ná að opna vörnina þeirra þegar við vorum að spila okkar taktík. Mér fannst við sjá möguleikana en við vorum bara ekki að velja réttu möguleikana. Síðasta sendingin var oft að klikka og við klikkuð alltof mikið úr dauðafærum og úr fínum skotfærum fyrir utan," sagði Rakel.

„Við þurfum að spyrna okkur upp frá botninum og girða okkur í brók. Þetta er slæmt og svona stórt getur haft eitthvað að segja ef það fer í innbyrðismarkatölu. Við verðum bara að halda einbeitingu á leikinn á morgun og verðum að gera miklu, miklu betur. Við verðum að stíga upp og það eru nánast allir leikmennirnir að spila undir getu og allir eiga eitthvað inni. Það þýðir ekkert að svekkja sig of mikið af þessu og verðum bara að fara einbeita okkur strax af leiknum á morgun," sagði Rakel.

Arna Sif: Mjög leiðinleg byrjun á mótinu.
Mynd/Stefán
Arna Sif Pálsdóttir átti ágæta innkomu á línuna í leiknum í kvöld en nýtti þó ekki færin sín nógu vel eins og fleiri leikmenn íslenska liðsins.

„Þetta var svolítið slæmt tap og mjög leiðinleg byrjun á mótinu. Það gekk bara ekkert upp hjá okkur í dag því miður. Varnarleikurinn var fínn í fyrri hálfleik og við ætluðum að halda því áfram í seinni hálfleik. Þær fengu nokkur ódýr mörk úr hraðaupphlaupum og við erum líka að fá ódýrar tvær mínútur fyrir að brjóta í hraðaupphlaupi. Það er alveg óþarfi að gera það," sagði Arna Sif.

„Við vorum heldur ekki að nýta færin okkar nógu vel og markmaðurinn hjá þeim fékk að eiga of góðan leik. Við þurfum að fara betur eftir fyrirmælunum sem við fáum. Við áttum að stoppa þessar skyttur sem gekk ekki alveg nógu vel. Við áttum að hlaupa til baka í hraðaupphlaupum og ekki brjóta alveg jafnmikið á þeim," sagði Arna Sif.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×