Innlent

Kúrþjónusta stofnuð á Íslandi - selja hlýju, ekki blíðu

Gott faðmlag getur bjargað deginum.
Gott faðmlag getur bjargað deginum.
„Við getum kúrað með þér eða legið fyrir framan sjónvarpið og horft á Vídjó," segir Einar Viðarsson sem auglýsir nú heldur nýstárlega þjónustu á vefnum bland.is, en það er nokkurskonar kúrþjónusta.

Einar, ásamt einni konu, hafa ákveðiði að falbjóða hlýju sína - og takið nú eftir - hlýju sína en ekki blíðu sína. Þetta er semsagt ekki kynlífsþjónusta eins og Einar segist raunar hafa þurft að taka sérstaklega fram vegna fyrirspurna, en það voru félagarnir í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni sem ræddu við Einar um þessa nýjung hér á landi.

„Ég sá þetta fyrir einhverjum mánuðum síðan, einhver stúlka erlendis bauð upp á þetta," útskýrir Einar sem hefur fengið gríðarlega mikil viðbrögð við auglýsingunni. Hann segir það einsýnt að hann og kona sem er með honum í þessu fyrirtæki geti ekki þjónustað alla þá sem eru tilbúnir að greiða fyrir hlýjuna. Hann hyggst því ráða inn nýtt starfsfólk.

Fyrir forvitna þá kostar klukkutíminn 7500 krónur og svo er hægt að semja um framhaldið, segir Einar. Sá sem pantar þjónustuna getur valið hvort hann vilji karl eða konu, og ef honum líkar ekki manneskjan sem kemur, þá er ekkert mál að hætta við.

Einar segir fulla þörf á svona þjónustu, „það er mikill tilfinningakuldi í gangi, mikið um sjálfsvíg og einsemd," segir Einar sem vill selja þessum kúnnahópi tilfinningalega hlýju á þessum erfiðu tímum.

Hægt er að hlusta á viðtalið hér fyrir ofan. Fyrir þá sem vilja nálgast þjónustuna er þeim bent á smáauglýsingar á vefnum bland.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×