Innlent

Stefnir í fækkun í löggæsluliði Árborgar

BBI skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Mynd/ Óskar.
Fram kom á síðasta fundi bæjarráðs sveitarfélagsins Árborgar að enn stefnir í niðurskurð hjá lögregluembættinu þar. Frá þessu var greint á fréttavef Dagskrárinnar í dag. Til stendur að segja fjórum lögreglumönnum upp störfum.

Lögreglan í Árnessýslu er undirmönnuð fyrir og eins og fréttastofa greindi frá fyrr í haust er álag á lögreglumönnum slíkt að oft neyðast þeir til að keyra fram hjá umferðarslysum til að sinna öðrum brýnni verkefnum.

Samkvæmt úttekt ríkislögreglustjóra fyrir fimm árum síðan er þörf á 34-36 stöðugildum í lögreglunni í Árnessýslu, auk yfirvinnu. Stöðugildin eru nú 24 og ef fram fer sem horfir verða þau 20 innan skamms.

Bæjarráð ítrekaði áhyggjur sínar af löggæslumálum á síðasta fundi sínum. Lögreglan á svæðinum þarf að sinna mörgum því auk íbúa eru um 60% sumarhúsa landsins í sýslunni.

Bæjarráð óskaði eftir því að frá skýrslu innanríkisráðuneytisins um löggæslumál senda, en hún er ekki aðgengileg á netinu. Þá óskaði bæjarráð einnig eftir upplýsingum um hvernig fjárveitingum er skipt á milli lögregluembætanna í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×