Innlent

Öryrki stefnir íslenska ríkinu

Erla Hlynsdóttir skrifar
Öryrki hefur stefnt íslenska ríkinu og Tryggingastofnun vegna vangoldinna bóta. Mánaðarlegar bætur þyrftu að vera tvöfalt hærri til að ná almennu neysluviðmiði sem ríkið sjálft hefur sett.

Öryrkjabandalag Íslands stendur að baki Dagrúnu Jónsdóttur sem hefur stefnt ríkinu til að greiða sér 2,1 milljón króna sem hún segir að vanti upp á bætur sínar það sem af er ári.

Á vef velferðarráðuneytisins er hægt að reikna út neysluviðmið. Dagrún býr ein, á höfuðborgarsvæðinu, og samkvæmt ráðuneytinu ætti hún því að eyða rúmlega 66 þúsund krónum í hvers kyns neyslu á mánuði, 36 þúsund í þjónustu og öðru eins í tómstundir og afþreyingu. Heildarútgjöld fólks í hennar stöðu, fyrir utan húsnæði, eru áætluð 223 þúsund krónur. Þegar húsnæðinu er bætt við er mánaðarlega upphæð orðin tæp 292 þúsund.

Dagrún fær hins vegar tæp 203 þúsund í bætur á mánuði, fyrir skatt, sem er öllu lægra en viðmiðið. Til að fá þá upphæð útborgaða þarf að vera með tæpar 400 þúsund í tekjur fyrir skatt, tvöfalt meira en Dagrún fær.

Öryrkjabandalagið fjármagnar málssóknina og var mál Dagrúnar valið sem prófmál eftir mikla yfirlegu.

„Þetta snýst um að vera ekki dæmdur í ævilanga fátækt," sagði Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalagsins í fréttatíma Stöðvar 2 í kvöld.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Öryrkjabandalagið stendur að baki málaferlum en árið 2000 féll hinn svonefndi öryrkjadómur sem færðu öryrkjum miklar kjarabætur.

Guðmundur segir að ef dómur í þessu máli fellur Dagrúnu í vil skipti það sköpum fyrir alla bóta- og lífeyrisþega.

Ítarlegra viðtal við Guðmund vegna málsins má nálgast hér að ofan.

Úr fréttatíma Stöðvar 2.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×