Innlent

Umferðarþungi í borginni eykst

Höskuldur Kári Schram skrifar
Umferðarþungi í og við miðborg Reykjavíkur mun aukast um allt að þrjátíu prósent á næstu áratugum ef ekki tekst að breyta ferðavenjum borgarbúa. Aukningin gæti numið sjötíu þúsund bílferðum á dag.

Þetta kemur fram í minnisblaði um framtíðarþróun umferðar í nágrenni við nýjan Landspítala sem umhverfis og skipulagssvið Reykjavíkurborgar gerði fyrir skipulagsráð.

Í minnisblaðinu er því spáð að umferð vestan Kringlumýrarbrautar muni að óbreyttu aukast um þrjátíu prósent til ársins 2030. Árið 2010 mældust um 190 þúsund bílferðir á svæðinu á sólarhring en þær verða 260 þúsund ef þessi spá rætist.

Á háannatíma í Reykjavík í dag eru langar bílaraðir í borginni og bíll við bíl. Menn geta bara rétt ímyndað sér hvernig þetta muni líta út ef verstu spár munu rætast.

Ef það er hins vegar hægt að breyta ferðavenjum borgarbúa - það er að segja draga úr notkun einkabílsins og hvetja fólk til að nota almenningssamgöngur verður hægt að draga úr umferðaþunga sem nemur 15 þúsund bílferðum á sólarhring.

Í minnisblaðinu er þeirri spurningu varpað fram hvort áætlanir um breyttar ferðavenjur séu raunhæfar. Ljóst sé að vegakerfi Reykjavíkur geti ekki þanist út óheft enda þoli borgarumhverfið það ekki. Mikilvægt sé að styðjast við hagræna hvata sem letja fólk frá því að nota einkabílinn. Sé það gert megi vænta breytinga en að öðrum kosti ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×