Ekki er unnið að breytingu á skilmálum skuldabréfa Íbúðalánasjóðs og engar ákvarðanir um slíkt hafa verið teknar, segir í tilkynningu sem Íbúðalánasjóður sendi Kauphöll Íslands í morgun. Íbúðalánasjóður segir í tilkynningunni að slík skilmálabreyting sé óframkvæmanleg nema í fullu samstarfi við eigendur fjármögnunarbréfa sjóðsins.
Haft var eftir Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, formanni velferðarnefndar Alþingis, í viðtali við Bloomberg í dag að Íbúðalánasjóður þurfi að endursemja um skilmála skulda sinna og þar með að fá eigendur skuldabréfanna til að samþykkja skilmálabreytingu sem heimilaði sjóðnum uppgreiðslu skulda sinna.
