Viðskipti innlent

Yfirvöld veita Íbúðalánasjóði 13 milljarða

Ríkisstjórnin ákvað í morgun að veita 13 milljarða framlag til Íbúðalánasjóðs til að uppfylla kröfur um eiginfjárframlag.

Í tilkynningu á vef velferðarráðuneytisins segir að innheimtuferlar verði endurskoðaðir, áhættustýring styrkt og fullnustueignir sjóðsins færðar í sérstakt félag í eigu ríkisins sem annist umsýslu þeirra.

Ríkisstjórnin hefur fjallað ítarlega um stöðu Íbúðalánasjóðs, veika eiginfjárstöðu hans og erfiðan rekstur sem rekja má til útlánatapa, ófullnægjandi vaxtamunar sjóðsins og áhættu af uppgreiðslum. Miðað við áætlanir stefnir í að eigið fé sjóðsins verði uppurið í lok þessa árs.

Staðan er í meginatriðum samhljóma mati stjórnenda Íbúðalánasjóðs en þeir hafa kortlagt og metið umfang áhættuþátta og viðbrögð við þeim. Framangreindir áhættuþættir hafa ítrekað verið til umræðu í stjórn Íbúðalánasjóðs á þessu ári og kynntir fyrir viðeigandi stjórnvöldum. Til þess að bregðast við aðsteðjandi vanda hefur Íbúðalánasjóður þegar komið af stað verkefnum á tilteknum sviðum og önnur eru í farvatninu.

Ríkisstjórnin mun afla heimildar í fjárlögum 2013 til að auka stofnfé Íbúðalánasjóðs um allt að 13 milljarða króna þannig að eiginfjárhlutfall sjóðsins verði ekki lægra en 3% miðað við ársbyrjun 2013. Það er þó engu síður áfram stefna stjórnvalda að eigið fé sjóðsins verði 5% líkt og kveðið er á um í reglugerð um sjóðinn. Nánari ákvörðun um fjárhæð framlagsins verður tekin um leið og uppgjör ársins 2012 liggur fyrir sem og áfangaskýrsla starfshóps velferðarráðherra.

Meira um málið á vef Kauphallarinnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×