Innlent

Það er mjólk í bernaisesósu Vogabæjar

Vogabær er í Hafnarfirði.
Vogabær er í Hafnarfirði.
Matvælafyrirtækið Vogabær vekur athygli neytenda á því að í Ef-bernaisesósu, sem fyrirtækið framleiðir, er notaður laktósi, þ.e. mjólkursykur unninn er úr mjólk.

Matvælastofnun gerði athugasemd við að í innihaldslýsingu á umbúðum vörunnar væri einungis talað um laktósa en ekki tilgreint að hann sé unninn úr mjólk.

Starfsmenn Vogabæjar brugðust þegar í stað við með því að setja límmiða á umbúðir þessarar tilteknu vöru í verslunum um allt land þar sem skýrt kemur fram að í henni sé notaður laktósi unninn úr mjólk.

Málið varðar eina tegund af Ef-bernaisesósu í 180 ml umbúðum.

Matvælastofnun vísar til reglugerðar um að koma skuli skýrt fram í innihaldslýsingu ef í vöru séu efni á lista yfir ofnæmis- og óþolsvalda eða upprunnin úr þeim. Þar á meðal eru vörur framleiddar úr mjólkursykri.

Vert er að vekja athygli á því að matvæli með mjólkursykri eru skaðlaus þeim sem ekki hafa óþol eða ofnæmi fyrir mjólkurvörum. Ef-bernaisesósan inniheldur innan við 0,1% af laktósa.

Vogabær biður viðskiptavini sína velvirðingar og hvetur þá, sem hafa óþol eða ofnæmi fyrir mjólkursykri, að forðast að borða vöruna sem hér um ræðir. Unnt er að skila henni til Vogabæjar að Eyrartröð 2a í Hafnarfirði eða utan höfuðborgarsvæðisins í verslunum þar sem varan var keypt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×