Gagnrýni

Listræn sýning Sigur Rósar

Freyr Bjarnason skrifar
Jón Þór Birgisson og félagar í Sigur Rós fóru á kostum á mögnuðum tónleikum í Nýju Laugardagshöllinni á sunnudagskvöld.
Jón Þór Birgisson og félagar í Sigur Rós fóru á kostum á mögnuðum tónleikum í Nýju Laugardagshöllinni á sunnudagskvöld. fréttablaðið/valli
Sigur Rós

Nýja Laugardagshöllin

4. Nóvember



Eins og búast mátti við ríkti mikil eftirvænting eftir fyrstu tónleikum Sigur Rósar hérlendis í fjögur ár. Hljómsveitin hefur verið á tónleikaferð um heiminn til að fylgja plötunni Valtari eftir og ætlaði að tjalda öllu til á heimavelli. Það gerði hún bókstaflega því þegar í Nýju Laugardalshöllina var komið var búið að girða sviðið af með stóru gegnsæju tjaldi.

Eftir að hljómsveitin mætti nokkuð seint á svið, tíu mínútur yfir átta, hófust leikar. Í fyrstu þremur lögunum var tjaldið fyrir sviðinu og varpað var á það myndum, bæði af trjám úr tónlistarmyndböndum Sigur Rósar og af hljómsveitarmeðlimunum sjálfum uppi á sviði, enda sáust aðeins skuggar þeirra í gegnum tjaldið. Stundum leið manni eins og maður væri að horfa á risastórt tónlistarmyndband en þetta kom engu að síður mjög vel út og var upphafið að mikilli sjónrænni veislu.

Eftir að tjaldið hafði verið fellt niður hékk breiðtjald yfir sviðinu þar sem ýmsum myndum var áfram varpað. Sú lausn, ef svo má segja, heppnaðist afar vel. Sigur Rós spilaði mörg af sínum bestu lögum á tónleikunum en aðeins var pláss fyrir eitt af hinni hlustendavænu Með suð í eyrum við spilum endalaust og tvö af nýju plötunni Valtara.

Áhorfendur tóku mest við sér þegar Hoppípolla byrjaði að óma. Allir flottu snjallsímarnir voru drifnir á loft og lýstu þeir upp salinn á meðan þeir tóku upp herlegheitin. Annars er erfitt að nefna eitt lag umfram annað á tónleikunum. Nánast öll voru þau frábær, þar á meðal Glósóli, Hafsól og Varúð. Hljómsveitarmeðlimir voru sem fyrr fámálir. Það eina sem Jónsi sagði fram að uppklappi var til mynda "takk" og það aðeins tvisvar sinnum.

Eftir uppklapp spilaði Sigur Rós þrjú lög, þar á meðal nýja lagið Brennisteinn. Þar kvað við nokkuð nýjan tón. Lagið var einhvers konar blanda af elektrói og rokki, virkilega töff, og var það kryddað með æðislegri grænni leysigeislasýningu, en fyrr á tónleikunum hafði blá leysigeislasýning lýst upp salinn. Brennisteinn veit á gott fyrir næstu plötu Sigur Rósar, sem kemur líklega út á næsta ári. Lokalagið var svo síðasta lag svigaplötunnar, Popplagið. Sannarlega frábær endahnykkur á mögnuðum tveggja tíma löngum tónleikum.

Þessir langþráðu Sigur Rósar tónleikar stóðu vel undir væntingum. Spilamennskan var framúrskarandi og virtist hljómsveitin ekkert sakna hljómborðsleikarans Kjartans Sveinssonar. Sjónræni þátturinn hafði einnig mikið að segja og gerði frábæra tónleika enn betri; eiginlega að listrænni sýningu.

Ekki amalegur endir á annars stórskemmtilegri Airwaves-hátíð.

Niðurstaða: Frábærir tónleikar hjá Sigur Rós. Veisla fyrir augu og eyru.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×