FH tekur á móti toppliði Hauka í dag í lokaleik 7. umferðar N1 deildar karla og fyrsta Hafnarfjarðarslag tímabilsins en leikurinn hefst klukkan 15.00 í Kaplakrika.
Það er alltaf mikill viðburður þegar Hafnarfjarðarliðin mætast en að þessu sinni eiga Haukar möguleika á því að ná sex stiga forskoti á toppnum.
Haukar unnu báða bikarleiki liðanna í fyrra en FH-liðið vann aftur á móti tvo af þremur leikjum liðanna í deildinni. Heimavallaráhrifin voru greinilega ekki að skila sér í deildarleikjunum því útiliðin unnu þá alla.
Haukar unnu eina leik liðanna í Kaplakrika á síðustu leiktíð en það var einnig fyrsti Hafnarfjarðarslagurinn á því tímabili. Haukar unnu leikinn 21-16 en FH-ingar fögnuðu aftur á móti sigri í síðasta leik félaganna þegar þau mættust á Ásvöllum í lok mars.
Deildarleikir FH og Hauka í fyrravetur:
19.desember 2011- Kaplakriki FH - Haukar 16-21 (8-7)
9.febrúar 2012 - Schenkerhöllin Haukar - FH 20-26 (10-10)
30.mars2012 - Schenkerhöllin Haukar - FH 18-20 (10-8)
