Innlent

Ánægðir með niðurstöðuna - hámarksrefsing 12 ár

Mennirnir mættu allir í Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun.
Mennirnir mættu allir í Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun. mynd/BL
Þrír pólskir karlmenn voru í morgun dæmdir í þriggja ára fangelsi fyrir innflutning á amfetamíni hingað til lands. Fíkniefnin voru falin í sjampóbrúsum en það var fíkniefnahundurinn Nelson sem kom upp um smyglið.

Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur á tíunda tímanum í morgun og voru mennirnir þrír, sem sæta gæsluvarðhaldi á Litla Hrauni, viðstaddir dómsuppsöguna.

Málið hófst í apríl á þessu ári þegar þeir komu með flugi hingað til lands frá Varsjá í Póllandi. Það var fíkniefnahundurinn Nelson sem merkti fíkniefni á einum mannanna þegar hann gekk fram hjá tollvörðum. Við aðalmeðferð málsins bar tollvörður vitni, en hann lýsti því þegar hann vigtaði sjampóbrúsann þá reyndist hann vera um eitt kíló að þyngd en samkvæmt innihaldslýsingu átti hann að vera 750 grömm. Það þótti grunsamlegt og við nánari skoðun reyndist amfetamín vera falið í nokkrum sjampó-brúsum.

Tveir sluppu framhjá tollvörðum

Þegar þarna var komið við sögu þá kom annar tollvörður á leitarsvæði tollvarða á Keflavíkurflugvelli. Hann grunaði að ekki væri allt með felldu því stuttu áður hafði hann skoðað í tösku annars manns, sem var með sama innihald og taskan með afmetamíninu. Sama tegund af nærbuxum, biblía og mjög svipað pakkað ofan í töskurnar.

Því var gerð leit að manninum fyrir utan flugstöðina en sá reyndist á leið til Reykjavíkur með leigubíl, ásamt öðrum manni. Þegar þarna var komið við sögu voru þrír menn grunaðir um smygl á fíkniefnum til landsins. Þegar leigubíllinn var stöðvaður af lögreglu í Kópavogi reyndist sá grunur á rökum reistur, því í farangri mannanna tveggja fundust eins sjampóbrúsar og reyndist svipað magn af amfetamíni vera í þeim.

Vissu ekki hver af öðrum

Við aðalmeðferð málsins sögðust mennirnir vera burðardýr og að ferðin til Íslands hafi verið skipulögð af ónafngreindum mönnum í Póllandi. Þeir hafi ekki vitað hver af öðrum.

Niðurstaða dómara var þriggja ára fangelsi, auk þess sem mönnum er gert að greiða verjandum sínum málsvarnarlaun og um eina milljón í sakarkostnað. Þá dregst gæsluvarðhaldið, sem mennirnir hafa setið í frá því í apríl, frá dómnum.

Saksóknari í málinu fór fram á sex til sjö ára fangelsi yfir mönnunum, en hámarskrefsing fyrir brot af þessu tagi er tólf ár. Að sögn verjanda eins af mönnunum eru þeir ánægðir með niðurstöðuna í málinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×