Innlent

Segir eigendafund um OR hafa verið ólöglega boðaðan

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að mikill vafi leiki á því hvort eigendafundur í Orkuveitu Reykjavíkur hafi verið löglega boðaður. Fundurinn var boðaður í dag, vegna útkomu sannleiksskýrslu um rekstur borgarinnar til ársloka 2010.

Kjartan segir að í 11. grein sameignarsamnings um Orkuveitu Reykjavíkur og í 6. kafla nýsamþykktrar eigendastefnu sé skrifað að eigendafundi skuli halda eftir ákvörðun stjórnar eða kröfu sameigenda með a.m.k. sjö daga fyrirvara. „Með þessu er ljóst að stjórn fyrirtækisisins ber ábyrgð á boðun eigendafunda og þar með ákvörðunum um hvort efni séu til að víkja frá áðurnefndum sjö daga fyrirvara. Í tilviki þessa fundar tók réttmætur fundarboðandi, stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, ekki ákvörðun um fundarboð né að fallið skyldi frá sjö daga frestinum, sem felur tvímælalaust í sér frávik frá samþykktum sameignarsamningi og eigendastefnu. Slíkt frávik ber ætíð að samþykkja af réttmætum fundarboðanda, sem var ekki gert í þessu tilviki, enda var fundarboð eigendafundarins ekki borið undir stjórnina áður en það var sent," segir Kjartan í yfirlýsingu til fjölmiðla.

Kjartan vekur jafnframt athygli á því að fulltrúar í stjórn Orkuveitunnar hafi ekki fengið fundarboð á fundinn þrátt fyrir að löng og óslitin hefð sé fyrir því að þeim sé boðið að sitja eigendafundi félagsins.

Sannleiksskýrslan um rekstur Orkuveitu Reykjavíkur mun verða kynnt fjölmiðlum klukkan 17:15. Ítarlega verður sagt frá skýrslunni í kvöldfréttum Stöðvar 2 og á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×