Innlent

Mun beita sér fyrir minni ítökum stjórnmálamanna í OR

BBI skrifar
Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs.
Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs. Mynd/Anton Brink
Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, mun beita sér fyrir því að ítök stjórnmálamanna í Orkuveitu Reykjavíkur (OR) verði minnkuð.

Dagur telur það einn helsta lærdóminn sem draga má af sannleiksskýrslunni sem birt var í dag að pólitíkusar megi ekki hafa of mikil ítök í fyrirtækinu. Dagur bendir á að það er rúmt ár síðan meirihlutinn í borgarstjórn lagði til að ráðist yrði í að lágmarka völd stjórnmálamanna í Orkuveitunni. „Það er mjög mikilvægt í endurreisn Orkuveitunnar," sagði Dagur.

Dagur og Hanna Birna, oddviti borgarflokks Sjálfstæðismanna, sögðu bæði eftir blaðamannafund þar sem skýrslan var kynnt að þau fögnðu útkomu hennar. „Þessi skýrsla er góð fyrir okkur," sagði Hanna Birna og vonar að hún gagnist vel við að „kveða niður þann fortíðardraug" sem Orkuveitan hefur verið í starfsemi borgarstjórnarinnar á undanförnum árum.

Hanna Birna er ekki eins sannfærð og Dagur um að það sé ekki hlutverk stjórnmálamanna að sitja í stjórn Orkuveitunnar. Þetta atriði þurfi að ræða. „Skýrslan bendir líka á það að stjórnendur hér, sem eru ekki pólitískt kjörnir hafi farið framhjá pólitískt kjörnum fulltrúum og þannig virt að vettugi þá sem eru raunverulegir eigendur fyrirtækisins sem eru íbúar í þessum sveitarfélögum,“ segir Hanna Birna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×