Innlent

Aðstaðan á Reykjavíkurflugvelli óboðleg

BBI skrifar
Aðstaðan á Reykjavíkurflugvelli er óboðleg, bæði fyrir farþega og starfsfólk. Framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands og alþingismaður sammældust um það í útvarpsþættinum Reykjavík Síðdegis og töldu nauðsynlegt að byggja betri aðstöðu á flugvellinum hvort sem hin endanlega niðurstaða verður sú að færa flugvöllinn eða ekki.

Flugfélag Íslands lagði til fyrir um tveimur árum að nokkurs konar bráðabirgðahúsnæði yrði byggt á flugvellinum sem hægt væri að taka niður án mikils umstangs ef ráðamenn kæmust að þeirri niðurstöðu að færa ætti flugvöllinn. Sú tillaga hefur legið hjá Skipulagsráði síðan og liggur enn.

„Við viljum að það sé mannsæmandi húsnæði í boði á meðan við erum að reka þessa þjónustu í Vatnsmýrinni," segir Árni Gunnarsson, forstjóri Flugfélags Íslands og bendir á að aðstaðan hafi ekki breyst mikið síðan flugvöllurinn fékkst afhentur frá Bretum á sínum tíma.

Þingmaðurinn Jón Gunnarsson telur einsýnt að flugvöllurinn muni verða í Vatnsmýrinni næstu árin. Þess vegna sé nauðsynlegt að bæta aðstöðuna þar, byggja nýtt húsnæði og malbika bílastæði, ekki síst því rúmlega 411 þúsund farþegar fóru um völlinn á síðasta ári. „Þetta er algerlega óboðlegt fyrir farþega og ekki síður starfsfólk," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×