Innlent

Erlendir ferðamenn orðnir alltof margir

BBI skrifar
Þór Saari.
Þór Saari. Mynd/Vilhelm
Fjöldi erlendra ferðamanna á Íslandi er orðinn alltof mikill að mati þingmannsins Þórs Saari. Hann segir einsýnt að það verði að bregðast við með fjöldatakmörkunum með einhverjum hætti.

„Við ráðum ekki við þennan fjölda. Hann er að skemma landið," segir Þór og bendir á að ferðamenn séu þegar orðnir um tvöfalt fleiri en heimamenn og komi nánast allir til landsins á þriggja mánaða tímabili. Hugmyndir ferðaþjónustunnar séu að fjölga þeim upp í milljón og með sama áframhaldi muni þeir fara í tvær milljónir innan skamms.

„Þetta mun ekki ganga upp. Ég vil ekki sjá Íslendinga svipta sínu landi fyrir einhver fyrirtæki í ferðaþjónustu," sagði Þór í útvarpsþættinum Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni í dag.

Þór segir að mikil ferðamennska skemmi samfélagið sem fyrir er í landinu. „Íslendingar sem fara niðrí miðbæ á sitt kaffihús sem þeir hafa kannski gert árum saman komast ekki að vegna þess að það er allt fullt af einhverjum ferðamönnum," segir hann.

„Ferðamennskan sviptir okkur Íslendinga því umhverfi sem við búum í og höfum alist upp í. Við getum ekki lengur farið á Þingvöll og notið þess að standa á hakinu og horfa á Þingvelli. Við getum ekki lengur farið á Gullfoss og Geysi og notið þess að fara þangað því það eru þúsundir útlendinga þar sem að trufla mann í sínu eigin landi," segir Þór.

„Menn virðast ætla að fara sömu leið í þessu máli eins og þeir fóru með síldina á sínum tíma og með fiskistofna síðar og virkjanir. Það er allt lagt undir í einu til að græða sem mest á sem skemmstum tíma. Það er staðan sem ferðaþjónustan er í núna," segir Þór og segir mikilvægt að bregðast við með einhverjum hætti.

Finnurðu hljómgrunn meðal þingmanna í þessum efnum? spyr þáttarstjórnandi.

„Það er hljómgrunnur meðal þingmanna um að ferðamenn séu orðnir of margir og það þurfi eitthvað að gera í því," svarar Þór en bætir við að þingmenn séu hræddir við að gagnrýna ferðaþjónustuna en tali um það sín á milli að eitthvað þurfi að gera í málunum en hvað nákvæmlega viti í raun enginn.

Þór Saari ræddi stöðu ferðaþjónustunnar með hliðsjón af þeirri skattahækkun sem blasir við í greininni á Alþingi í dag.

Hér að ofan má heyra viðtalið við Þór í heild sinni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×