Innlent

"Snýst um að efla stjórnsýsluna og þjóna íbúum betur"

Kópavogur
Kópavogur
„Ég held að við Kópavogsbúar munum áfram vera stoltir Kópavogsbúar, og ég geri fastlega ráð fyrir því að Hafnfirðingar, Garðbæingar og Álftnesingar verði áfram stoltir af sínum byggðarlögum," segir Ólafur Þór Gunnarsson, bæjarfulltrúi VG í Kópavogi.

Hann lagði í morgun fram tillögu í bæjarráði Kópavogs, ásamt Ómari Stefánssyni frá Framsókn, þess efnis að sameina skyldi Kópavog, Hafnarfjörð, Garðabæ og Álftanes í eitt sveitarfélag. Það sveitarfélag myndi fá nafnið Heiðmörk.

Tillagan gerir ráð fyrir að stofnuð verði viðræðunefnd allra sveitarfélaganna og skili greinargerði í mars árið 2013. Næstu skref í málinu er að boða fulltrúa frá hinum bæjunum á fund og bera tillöguna undir þá.

„Þetta snýst samt ekki um stoltið fyrir hönd bæjarfélagsins heldur um það að sameinast um þau mál sem að þessi sveitarfélög eru sterk í og stjórnsýsluna, efla hana og þannig þjóna íbúum á svæðinu betur," segir Ólafur.

Um 70 þúsund manns myndu búa í sveitarfélaginu og segir Ólafur Þór að eitt sterkt sveitarfélag myndi efla lýðræðið.

„Nú er það komið inn í lög að fjöldamörk á til dæmis það hversu margir íbúar eiga að vera á bakvið kjörinn fulltrúa og svo framvegis. Þannig þetta yrði sveitarfélag þar sem lýðræðislegur vettvangur yrði miklu stærri en núna, það mætti gera ráð fyrir því að ein sveitarstjórn, með kannski á bilinu 20 til 30 fulltrúa, yrði fyrir allt svæðið. Það gæfi þá minni hópum, minni framboðum, að komast að með minni prósentu atkvæða - og það myndi efla lýðræðið," segir hann.

En afhverju nafnið Heiðmörk?

„Þau eiga öll land að Heiðmörk, það er í raunini sameiningartákn, stærsta útivistarsvæði allra sveitarfélaganna. Gæti verið jákvæður vinkill á að þau gætu sameinast um það að þetta svæði væri svo mikilvægt, bæði í náttúrulegu og umhverfislegu tilliti, að sveitarfélagið ætti að taka nafn sitt af því."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×