Innlent

Milljarður í eldfjallaverkefni íslensks vísindamanns

Erla Hlynsdóttir skrifar
Evrópusambandið styrkir rannsóknarverkefnið um milljarð. Á myndinni má sjá gosið í Eyjafjallajökli.
Evrópusambandið styrkir rannsóknarverkefnið um milljarð. Á myndinni má sjá gosið í Eyjafjallajökli. mynd/ vilhelm.
Einu stærsta rannsóknarverkefni sem íslenskur vísindamaður hefur stjórnað er ýtt úr vör í dag. Um er að ræða ofurstöð í eldfjallafræði og nemur styrkur til verkefnisins um 950 milljónum króna. Nú í hádeginu stendur yfir kynning á verkefninu í hátíðarsal Háskóla Íslands.

Kveikjan að verkefninu er meðal annars eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010 en eins og kunnugt er olli það töluverðri röskun á flugi í Evrópu. Markmiðið með Ofurstöðvarverkefninu er að koma á fót samhæfðu evrópsku eldfjallavöktunarkerfi.

Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur við Norræna eldfjallasetrið á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, er stjórnandi þessa samvinnuverkefnis evrópskra háskóla, stofnana og fyrirtækja sem miðar að því að samþætta vöktun og rannsóknir á eldfjöllum. Markmiðið er að þróa nýjar leiðir til að meta eldgos og fyrirboða þeirra. Jarðvísindastofnun Háskólans og Veðurstofa Íslands eru leiðandi í verkefninu.

Verkefnið hefur fengið vilyrði um tæplega sex milljóna evra styrk frá Evrópusambandinu, jafnvirði um 950 milljónir króna, en verið er að skrifa undir samninga við aðila verkefnisins þessa dagana. Styrkurinn er sá hæsti sem íslenskur vísindamaður hefur fengið til að stjórna Evrópuverkefni og munu íslenskir þátttakendur verkefnisins fá um þriðjung fjárins.

26 aðilar í níu Evrópulöndum koma að verkefninu sem standa mun yfir í þrjú og hálft ár.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.