Innlent

Ekki ánægður með allt í skýrslunni

BBI skrifar
Mynd/Valgarður
Alfreð Þorsteinsson, fyrrum stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, er ekki sáttur við allt sem fram kemur í skýrslu úttektarnefndar Orkuveitunnar. Hann segir m.a. sorglega mikið af staðhæfulausu slúðri í skýrslunni og ekki farið nákvæmlega með heimildir.

Alfreð sendi fjölmiðlum yfirlýsingu vegna skýrslunnar fyrr í dag. Þar fagnar hann útkomu hennar en bendir á ýmislegt sem betur hefði mátt fara að hans mati.

Alfreð segir að eigendur Orkuveitunnar hafi alltaf verið upplýstir um starfsemi og stefnu fyrirtækisins í sinni stjórnartíð, öfugt við það sem fram kemur í skýrslunni, en hann var stjórnarformaður Orkuveitunnar frá stofnun 1999 fram að miðju ári 2006.

Einnig vekur umfjöllun nefndarinnar um fjármagnskostnað Orkuveitunnar undrun hans. Nefndin einblínir á of stutt tímabil í skýrslunni miðað við að virkjanaframkvæmdir eru fjárfrekar og byrja ekki að skila arði fyrr en nokkrum árum eftir framkvæmdina. Í öðru lagi eru öll áhrif gengisfalls eftir hrun tekin að fullu inn í fjármagnskostnaðinn en ekki skoðað hvort um er að ræða langtímafjárfestingar.

Hann segir alrangt að stjórnarmenn hafi ekki haft fulla vitneskju um lán og lánasamsetningu á hverjum tíma í hans stjórnartíð.

Hann telur nefndina gera of lítið úr þeirri staðreynd að gjaldskrárhækkanir Orkuveitunnar voru of stopular vegna þess að stjórnmálamenn treystu sér ekki til að hækka gjaldskrár. Það telur hann eina helstu ástæðu bágrar fjárhagsstöðu Orkuveitunnar.

Hann telur nefndina einnig gera of lítið úr kaupum Orkuveitunnar á hlut í Hitaveitu Suðurnesja, sem hann eiga stóran þátt í erfiðri fjárhagsstöðu fyrirtækisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×