Innlent

Fullyrðir að engin efni hafi fundist í fórum sínum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Víðir Þorgeirsson, forsprakki Outlaws, leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjaness.
Víðir Þorgeirsson, forsprakki Outlaws, leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjaness.
Víðir Þorgeirsson, forsprakki Outlaws vélhjólasamtakanna, fullyrðir að engin fíkniefni hafi fundist þar sem húsleit var gerð hjá honum í Vogum á Vatnsleysisströnd í fyrradag. Víðir, sem sjálfur hefur hlotið fimm ára fangelsisdóm fyrir aðild að e-töflusmygli, var handtekinn ásamt fimmtán öðrum sem tengjast samtökunum. Hann var svo látinn laus í dag, þar sem dómari féllst ekki á gæsluvarðhaldskröfu yfir honum. Tveir karlmenn sem tengjast samtökunum eru í varðhaldi og ein kona.

Víðir heldur því fram að það sé algjör fjarstæða að til hafi staðið að ráðast á lögreglumann í hefndarskyni, en greint var frá því í dag að ástæður lögregluaðgerða í fyrradag hafi verið grunur um fyrirhugaða árás á einstaka lögreglumenn. „Svoleiðis er ekki gert hjá okkur og svoleiðis stríðir gegn starfsemi þessara samtaka," segir Víðir.

Blaðamaður: Hvers konar samtök eru þetta?

Víðir: Það get ég ekki sagt þér, að öðru leyti en því að þetta er bara mótorhjólaklúbbur og bræðralag.

Blaðamaður: Eru þetta skipulögð glæpasamtök, eins og það er skilgreint af lögreglu?

Víðir: Nei, hvergi í heiminum erum við dæmdir sem slíkir.

Blaðamaður: En það eru nokkrir einstaklingar í samtökunum sem eru dæmdir glæpamenn?

Víðir: Það eru svartir sauðir innan blaðamanna, outlawsmanna, lögreglumanna og í prestastéttinni. Við vitum það alveg. Það er bara eins og í hverjum öðrum samtökum og klúbbum.

Blaðamaður: Viltu lýsa því sem gerðist daginn sem þú varst handtekinn

Víðir: Það er engu að lýsa. Ég er svo nýsloppinn út sjálfur og er að reyna að átta mig á þessu og pússla þessu saman sjálfur. Þetta er náttúrlega eins og hver heilvitamaður vill vita, þá er auðvelt að teikna þessi samtök upp sem slæman hlut og þarna er stjórnvaldið og lögreglan að nota eitthvað til að verða sér úti um aukafjárveitingar. Auðvitað á að taka menn fyrir ef menn eru að gera eitthvað brotlegt en þetta virðist bara vera svolítið mikill leikur og svolítil skák. Ekki það að ég sé að teikna okkur sem einhverja sakleysingja, en það er allt í lagi að eiga það sem manni ber en ekki eitthvað annað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×