Innlent

Efnuðust vel á því að vera í Stuðmönnum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jakob Frímann Magnússon á tónleikum í Hörpu.
Jakob Frímann Magnússon á tónleikum í Hörpu. MYND / Bent Marinósson
Stuðmenn héldu tónleika í Hörpu í dag í tilefni af því að nú er verið að gefa út myndina Með allt á hreinu á nýjan leik. Þrjátíu ár eru liðin frá því myndin kom fyrst út.

„Við létum eggja okkur til þessara tónleika af útgefandanum okkar, Senu, sem er búin að endurvinna þetta allt saman og pakka þessu inn eins og afmælistertu," segir Jakob Frímann Magnússon Stuðmaður í samtali við Reykjavík síðdegis.

„Við erum bún að liggja yfir þessu svolítið alltaf á milli fimm og sjö á daginn í nokkrar vikur, endurútsetja þetta og bæta við ýmsum skemmtilegu. Og það á ekki neinum að leiðast alla vega" segir Jakob Frímann.

Jakob Frímann segir að starf hljómsveitarinnar hafi breyst mikið með útgáfu myndarinnar á sínum tíma. „Það urðu ákveðin vatnaskil með þessari kvikmynd sem var auðvitað einhver ódýrasta kvikmynd sem var gerð á Íslandi, gerð í mjög miklu gamni. Þetta voru endurfundir skólafélaga og vina sem voru búnir að vera í sitthvorri heimsálfunni," segir Jakob.

Hann segir að 120 þúsund manns hafi séð myndina í bíó á sínum tíma og margir síðan þá. Í heldina hafi á bilinu 150-160 þúsund manns séð hana í bíó. Svo hafi sjónvarpsstöðvarnar sýnt hana.

„Við efnuðumst vel á því að vera í Stuðmönnum á sínum tíma, því þá var gullöld spilamennskunnar á Íslandi. Það var hægt að fara hringinn í kringum Ísland á tveggja mánaða túr og við lifðum af því góðu lifi," segir Jakob.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×