Innlent

Karolina Fund - Nýsköpun í krafti fjöldans

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Almenningur getur nú lagt lóð sín á vogarskálar íslenskra listamanna og sprotafyrirtækja. Spáný íslensk vefsíða vill virkja áhuga evrópubúa á íslenskri nýsköpun með hópfjármögnun.

Karolina Fund er fyrsta hópfjármögnunarsíða landsins. Henni var hleypt af stokknum fyrr í vikunni en nú þegar er fjöldi verkefni skráður til leiks. En hvað nákvæmlega er hópfjármögnun:

„Fólk með skapandi verkefni eða sprotafyrirtæki, geta notað kerfið okkar til að sækja fjármagn til almennings," segir Ingi Rafn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Karolina Fund.

Nokkur verkefni eru nú þegar skráð til leiks. Tónlistarmaðurinn Pétur Ben hefur leitað á náðir landsmanna og fleiri við að fjármagna nýjustu plötu sína. Einnig hafa aðstandendur kvikmyndarinnar Hross skráð sig hjá vefsíðunni en fjármagn vantar við eftirvinnslu myndarinnar. Þá getur almenningur einnig aðstoðað við uppbyggingu geitastofnsins og í þokkabót fengið kiðling skírðan í höfuðið á sér.

„Þú byrjar á því að búa til kynningu á verkefninu, yfirleitt með myndbandi sem lýsir því. Síðan er fjárþörf verkefnisins útskýrð og almenningi er boðið að taka þátt í verkefninu með því forkaupum á vöru eða með því að styðja það með öðrum hætti."

Karolina Fund er af erlendri fyrirmynd en bandaríska vefsíðan Kickstarter nálgast hópfjármögnun með svipuðum hætti. Ingi Rafn og félagar kjósa þó að líta á hlutina í stærra samhengi enda horfa þeir ekki síður á evrópumarkað en þann íslenska.

„Ég vona að Íslendingar grípi tækifærið og komi með virkum hætti að því að byggja upp skapandi iðnað og sprotafyrirtæki."

Hægt er að nálgast Karolina Fund hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×