Innlent

Yoko Ono tendraði ljós Friðarsúlunnar

BBI skrifar
Yoko Ono kom sjálf út í Viðey í kvöld og var viðstödd þegar kveikt var á Friðarsúlunni sjötta árið í röð. Fjölmennur hópur fólks var viðstaddur en hópurinn samanstóð að stærstum hluta af erlendum ferðamönnum og fjölmiðlamönnum.

Yoko Ono hélt stutta ræðu áður en ljósin voru tendruð. Þar sagði hún meðal annars að andi þeirra sem heiðraðir voru í dag og eru fallnir frá væri með þeim. Þar átti hún bæði við Rachel Corrie, sem lést þegar jarðýta ísraelska hersins ók yfir hana þar sem hún mótmælti niðurrifi heimila Palestínumanna á Gasasvæðinu árið 2003, og rithöfundinn Christopher Hitchens.

Eftir ræðuna var lagið Imagine með John Lennon spilað og viðstaddir fylgdust með í þögn þegar kveikt var á Friðarsúlunni.

Friðarsúlan var fyrst tendruð árið 2007 við hátíðlega athöfn í Viðey. Ár hvert er Friðarsúlan tendruð tveimur tímum eftir sólsetur frá afmælisdegi John Lennons, 9. október, til og með 8. desember en þann dag dó John Lennon árið 1980. Þannig logar ljósgeisli hennar yfir Reykjavíkurborg fyrstu vetrarmánuðina á ári hverju. Þar að auki er Friðarsúlan tendruð í eina viku í kringum vetrarsólstöður, á gamlárskvöld, í eina viku í kringum vorjafndægur og á sérstökum hátíðardögum sem listamaðurinn og Reykjavíkurborg koma sér saman um.

Hér má sjá myndir frá því þegar Friðarsúlan var tendruð í kvöld.


Tengdar fréttir

Fjölmenni á leið út í Viðey

Fjölmenni hefur nú safnast saman á Skarfabakkanum á leið út í Viðey til að fylgjast með tendrun Friðarsúlunnar. Hundruð gesta bíða þess nú að verða ferjaðir út í eyjuna til að fylgjast með þegar kveikt verður á súlunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×