Innlent

Hafa þurft að keyra framhjá slysum vegna manneklu

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Lögreglumenn á Selfossi eru að bugast undan vinnuálagi því lögreglumönnunum fækkar stöðugt á vöktum, eru oft bara þrír en eiga á sama tíma að sinna fimmtán þúsund íbúum í Árnessýslu og ferðamönnum á svæðinu. Yfirlögregluþjónn segir að lögreglumenn þurfi stundum að keyra fram hjá slysum til að sinn öðrum brýnni verkefnum.

Lögreglan á Selfossi gat ekki sinnt nokkrum útköllum um helgina vegna skorts á lögreglumönnum en starfsmönnum á lögreglustöðinni hefur fækkað stöðugt frá 2008, voru þá 26 en eru ekki nema 20 í dag.

„Þetta er afleitt og þeir sem leita til lögreglu eiga oft mikla hagsmuni undir," segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn. „Þannig að það getur orðið skaði af."

Í Árnessýslu búa um 15 þúsund manns og svæðið nær yfir níu þúsund ferkílómetra svæði. Mörg dæmi eru um að þrír lögreglumenn séu á vakt í miðri viku og það segir þá allt um löggæsluna, varðstjóri er inni og tveir lögreglumenn úti.

„Þetta er náttúrulega erfiðast fyrir mennina sjálfa. Það er hætta á að öryggi þeirra sé ekki tryggt þegar það er langt í aðstoð."

Geturðu nefnt dæmi um slys þegar lögreglan hefur þurft að forgangsraða? „Það eru til dæmi þar sem við höfum hreinlega þurft að aka framhjá umferðarslysum vegna þess að mat okkar hefur verið það að brýnna sé að sinna öðrum slysum."

En hvað er hægt að gera í stöðunni og hvernig gengur að vinna svona með fimmtán þúsund manns á bak við sig?

„Þetta hefur verið látið ganga og það er auðvitað ekki gott. Það eru fimmtán þúsund manns skráðir hér í sýslunni en við erum einnig með mikinn fjölda fólks sem er hér gestkomandi, bæði í sumarhúsum og á tjaldstæðum. Á sumrin áætlum við að það séu um 45 þúsund manns hér í sýslunni.

Þá hefur akstur lögreglubíla minnkað mikið í Árnessýslu á síðustu árum. Nú sinnir lögreglan nánast eingöngu kyrrstöðueftirliti og er því lítið á ferðinni um sýsluna.

„Við höfum kynnt bæði ríkislögreglustjóra og innanríkisráðuneyti stöðuna og þar er sýndur skilningur á stöðunni. Að endingu er það náttúrulega Alþingi og þingmenn sem ákveða hvað sé ásættanlegt öryggis- og þjónustustig í sýslunni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×