Viðskipti innlent

Fjármálaráðherra fundar með hagsmunaðilum í ferðaþjónustu

Oddný G. Harðardóttir, fjármálaráðherra.
Oddný G. Harðardóttir, fjármálaráðherra.
Oddný Harðardóttir fjármálaráðherra muna funda með hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu í ráðuneyti sínu í dag vegna fyrirhugaðrar hækkunar á virðisaukaskatti á gistiþjónustu. Mikil óánægja er með fyrirhugaða hækkun innan ferðaþjónustunnar.

Stjórnvöld hyggjast hækka virðisaukaskattinn úr 7 prósent í 25,5 prósent, og á þessi hækkun að skila tveimur og hálfum milljarði í ríkiskassann til viðbótar. Gatið sem stjórnvöld eru nú að leita leiða til þess að loka í fjárlögum fyrir næsta ár er á bilinu 16 til 20 milljarðar króna. Ýmist þarf að skera niður eða hækka skatta svoa að markmið náist.

Hækkunin á ferðaþjónustuna hefur fallið í grýttan jarðveg hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu sem segja hana geta orðið að rothöggi fyrir greinina á miklum uppbyggingartíma, ekki síst þar sem ferðaheildsalar erlendis séu þegar farnir að selja ferðir hingað til lands tvö ár fram í tímanna á föstum verðum. Auknar tekjur vegna skatthækkunarinnar munu því ekki koma úr vasa erlendra ferðamanna heldur frekar beint frá fyrirtækjum sjálfum, sem dragi úr samkeppnishæfni þeirra og möguleikum.

Á fundinn með ráðherra í dag koma forsvarsmenn Samtaka ferðaþjónustunnar, þau Erna Hauksdóttir framkvæmdastjóri og Árni Gunnarsson formaður, ásamt rekstraraðilum í gistiþjónustu hér á landi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×