Erlent

Sögulegur dagur í lífi Kristjaníubúa

Sögulegur dagur var í lífi Kristjaníubúa í Kaupmannahön í gærdag þegar þeir, eða raunar sjóður í eigu þeirra, fékk opinberlega yfirráðin yfir íbúðasvæðinu á staðnum.

Í umfjöllun danskra fjölmiðla um málið segir að hátíðleg athöfn hafi farið fram í Kristjaníu síðdegis í gær í tilefni af þessum tímamótum. Þar hafi umhverfis- og orkumálaráðherra Dana Martin Lidegaard flutt ávarp. Í því sagði hann m.a. að nú væri lokið fjörutíu ára baráttu Kristjaníubúa við danska ríkið og að nýr kafli í samskiptum þessara aðila væri hafinn. Hann trúir því að sá kafli muni jafnt verða til gagns og gleði fyrir Kristjaníubúana og danskt samfélag.

Jafnframt lagði Lidegaard áherslu á að hann vonaði að þessi dagur myndi verða þáttaskil í baráttu Kristjaníubúa og Dana við skipulögð glæpasamtök. Í því sambandi má nefna að dönsku glæpasamtökin Vítisenglar eru talin stjórna að mestu hasssölunni í Kristjaníu.

Sjóðurinn sem að fram greinir borgaði sem svarar til vel rúmlega milljarðs króna í gærdag fyrir 7,3 hektara af Kristjaníu. Það er það svæði þar sem öll íbúabyggðin stendur á. Hina rúmlega 24 hektarana fær ríkið í sinn hlut.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×