Erlent

Pillay varar við vopnaflutningi til Sýrlands

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Navi Pillay, mannréttindafulltrúi Sameinuðu Þjóðanna.
Navi Pillay, mannréttindafulltrúi Sameinuðu Þjóðanna. mynd/AP
Navi Pillay, mannréttindafulltrúi Sameinuðu Þjóðanna, sagði í dag að auknir vopnaflutningar til stríðandi fylkinga í Sýrlandi myndu aðeins leiða til áframhaldandi blóðsúthellinga í landinu.

Hún sagði að óbreyttir borgarar hefðu fallið í átökum stjórnarandstæðinga og öryggissveita og að augljóst væri að mannfall yrði meira ef aðgengi að skotföngum yrði aukið.

Þá fór Pillay fram á að Alþjóðaglæpadómstóllinn myndi fjalla um atburði síðustu missera í Sýrlandi.

Óttast er að átök í landinu eigi eftir að harðna enn frekar á næstu vikum en mikil spenna hefur ríkt milli Sýrlands og Tyrklands síðan herþota tyrkneska hersins var skotin niður af sýrlenskum hermönnum.

Þá greindu tyrkneskir fjölmiðlar frá því í dag að rúmlega 30 sýrlenskir hermenn hefðu svikist undan merkjum í dag. Mennirnir eru sagðir hafa flúið yfir landamæri til Tyrklands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×