Skoðun

Uppskerutími íslensks grænmetis – njótið!

Bjarni Jónsson skrifar
Þessa dagana er að bresta á með einum skemmtilegast tíma grænmetisframleiðslu á Íslandi. Uppskerutími útiræktaðs grænmetis er hafin! Fyrst á markað var kínakálið og á meðan þú lesandi góður ert að lesa þessa grein ættu nýjar íslenskar kartöflur að vera komnar í allar betri verslanir! Síðan tekur hver tegundin við af annari. Blómkál, hvítkál, spergilkál, gulrætur og rófur. Iceberg, rauðkál og sellerí. Ekki má gleyma jarðaberjum sem fóru að berast í verslanir um miðjan júní og síðan eru hindber væntanleg. Það getur ekki verið betra – ný grænmetisuppskera er einfaldlega best!

Íslenskir grænmetisframleiðendur kappkosta að framleiða gæðavöru sem er smekkfull af vítamínum, hollustu og hreinleika. Ekki má heldur gleyma þeim tegundum sem ræktaðar eru í gróðurhúsum en tómatar og gúrkur eru þar helstar. Paprikan hefur verið að sækja í sig veðrið og ná aukinni hlutdeild. Því má ekki gleyma að það eru ekki mörg ár síðan neytendur gátu keypt íslenskt grænmeti allt árið.



Er grænmetið íslenskt?


Hvernig eiga þá neytendur að vita hvort grænmetið sé íslenskt? Grænmetisframleiðendur hafa undanfarin áratug markaðssett sínar vörur með skilaboðunum „Íslenskt grænmeti – þú veist hvaðan það kemur". Fánaröndin, eins og við köllum hana, er trygging á því að um íslenska hollustuvöru sé að ræða. Neytendur hafa enda brugðist einstaklega vel við og hefur íslenskt grænmeti sterka stöðu í vitund neytenda. Þeir treysta skilaboðum um ferskleika, hreinlæti og hollustu.

Þó hefur brugðið við að undirritaður hefur fengið kvartanir neytenda um að þeir hafi verið að kaupa íslenskt grænmeti í góðri trú en uppgötvi síðan að um innflutta vöru sé að ræða. Villandi merkingar, erlent grænmeti sett í íslenska kassa, keimlíkar merkingar og á íslensku umbúðunum eða jafnvel engar merkingar er helsta ástæða kvartanna. Þess skal getið að sumar búðir eru duglegar við að merkja uppruna grænmetisins en aðrar enda er það skylt samkvæmt reglugerð.



Hvað geta neytendur gert?


Ég hvet neytendur, sem eru í vafa þegar þeir standa frammi fyrir grænmetishillum verslana, að óska eftir því að fá að tala við verslunarstjóra og krefjast merkinga á uppruna grænmetisins. Það verður ekki breyting á fyrr en þrýstingur vex því ef merkingar vanta þá er verið að brjóta lög. Neytendur eiga ekki að sætta sig við að geta ekki tekið upplýsta ákvörðun um val á grænmeti. Umfram allt þá er um að gera að njóta þess að nú er uppskerutími og neytendur eiga kosta á frábæru íslensku grænmeti.




Skoðun

Sjá meira


×